10 meyjar

Mattheusarguðspjall 25:1-13

Enn sagði Jesús: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.
Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað.
Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.
Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.

 

Fella ´       

         NNáð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi.

Amen

 

Það blæs ekki sérstaklega byrlega í samfélagi okkar þessar vikurnar. Hrun bankakerfisins, erfiðleikar í gjaldeyrismálum, fjárskortur til að reka atvinnulíf landsmanna er tilfinnanlegur og áfram mætti telja þau áföll sem við lesum og heyrum um daglega í fjölmiðlum. Þessu fylgir enn alvarlegri atburðir þegar atvinnulíf þjóðarinnar er í uppnámi. Fjöldi fyrirtækja er við það að hætta starfsemi, atvinnuleysi eykst, greiðsluerfiðleikar fólks fara vaxandi. Fjölmargir, innanlands sem erlendis, hafa tapað stórfé á innlánsreikningum sínum, saklaust fólk sem í trúnaði og trausti lét sparifé sitt til ávöxtunar. Og það eru eðlilega margir þessa dagana sem eru kvíðnir, áhyggjufullir, ráðþrota og reiðir. Og við skulum ekki vanmeta reiði fólks. Hún getur snúist upp í alvarleg átök og hatrammar deilur sem kannski aldrei grær um heilt aftur. Það er auðvitað alvarlegt mál þegar saklaust fólk tapar eigum sínum beint eða óbeint. Þegar lán bólgna út og sífellt verður erfiðara að standa í skilum er það auðvitað ekkert annað en tap og orsakar réttláta reiði.

Og við megum ekki vanmeta þennan veruleika. Það er ábyrgðarhlutur stjórnvalda að upplýsa ekki hvar sök liggur, það er ábyrgðarhluti þeirra sem brugðust að upplýsa ekki hvað er framundan, það er líka ekki sístur ábyrgðarhlutur að biðjast ekki afsökunar, gangast við mistökum og iðrast. Það er býsna einfeldningslegt í rauninni og kannski allt að því skammarlegt og ámælisvert þegar ráðamenn og peningafurstar saka almenning í landinu um að hafa eytt um efni fram. Ég þekki margt fólk og hef talað við marga. Ég kannast ekki við það fremur en mörg ef ekki flest ykkar að fólk almennt hafi verið að sólunda fé í stórum stíl í lúxus. Það er ekki fólkið sem flogið hefur yfir húsþakinu hjá mér í þyrlum sínum og þotum undanfarin ár til að veðsetja eignir almennings í vafasömum viðskiptum í útlöndum. Og nú stendur það fólk og horfir framan í almenning og gefur í skyn að bruðl daglaunafólks sé búið að koma okkur í klandur. Þjóðin hefur eytt um efni fram, er sagt til að allir verði sakbitnir. Er það svo?

Biblían er raunsönn bók. Hún er ekki gamaldags hindurvitni um óræðan himinbláma og dýrð í ósnertanlegri eilífð. Hún er bók um veruleika lífsins, líf gærdagsins, líf nútímans, líf framtíðarinnar. Í dag talar hún um fyrirhyggjuna m.a. Og um fyrirhyggjuleysið, muninn á þessu tvennu, afleiðingar þessa. Og um hvað snýst þjóðmálaumræðan þessa dagana, gott fólk og kæru vinir? Um fyrirhyggjuleysið, um óðagotið, um stundargleðina og vímuna, um það að fá sem mest á skömmum tíma og hugsa ekki um afleiðingar þess að skoða alla hliðar hvers máls. Um græðgi og óheilindi Flókið? Ekki svo mjög.

Þær voru tíu meyjarnar í guðspjalli dagsins. Fimm voru hyggnar og sáu að þegar brúðguminn kæmi þyrfti að hafa nægilegt ljósmeti til að lýsa honum leið. Fimm voru fávísar og ornuðu sér við það sem þær höfðu handbært og treystu á lán síðar. Það brást og þær misstu af partíinu, veislunni.

Ekki þekki ég fjölda þeirra né hverjir það eru sem mesta ábyrgð bera á ástandi þjóðmála hér. Það er heldur ekki mitt að gramsa í því né dæma aðra. En hitt má öllum vera ljóst að það er ekki mikil fyrirhyggja að hvetja þjóð til að lifa á lánsfé úr útlöndum. Það flöktandi skar sem af slíku lýsir mun ekki endast lengi og enginn verður aukaskammturinn til að lýsa þegar brúðguminn, skuldadagurinn, kemur. Þeim verður veislan lokuð eins og komið hefur á daginn. Við erum nefnilega í sporum fávísu meyjanna 5, við getum ekki kennt öðrum um, fyrirhyggjuleysi þeirra sem áttu að stoppa þetta bruðl af í tíma kemur okkur öllum í koll og mun marka samfélag okkar um ókomin tíma. Við fáum ekki lánað frá hyggnu meyjunum því við sýndum enga fyrirhyggju, ábyrgð, trúmennsku. Þær höfðu varað okkur við en við skelltum skollaeyrum.

Dæmisagan um meyjarnar tíu er eins og hún hafi verið samin í gær. Hún hittir nútímann í þessu landi og reyndar víðar eins og listaverk, sem hún og er. Jesús er þó að tala um aðra hluti en fjármálaástand og horfur í þjóðarbúskapnum. Hann er að tala um tilveruna alla, um nauðsyn þess að gefa lífinu, lífsgildunum, verðmætamatinu, trúnni gaum. Lifa lífi sínu í trú og trúmennsku, í vitund þess að Guð er þér nær en geisli á kinn, að við séum ekki alltaf að hugsa um líðandi stund heldur um lífið sem eina órjúfanlega heild, vegferð í dagsins önn, fyrirhyggju í hugsun og veruleika. Jesús er að minna á það að sú stund kemur að við stöndum frammi fyrir Guði, titrandi með tóma hönd, og hann spyr: Hvaða lífsins ljósmeti lýsir þér, barnið mitt. Ertu fávís eða hyggin manneskja, kanntu fótum þínum forráð, gefur þú gaum að skrefum þínum þessa lífs, áttu fyrirhyggju sem gerir ráð fyrir að lífið lifir og þú ert lífsins barn sem átt það eitt sem í hendi þér er? Mundu þá að hendurnar eru tvær, í annarri skaltu geyma það sem þarf til að þú lifir þá stund að brúðguminn, hinn upprisni Drottinn Jesús Kristur, verður þér lifandi veruleiki í lífi og dauða. Það er sú fyrirhyggja sem hann vill að þú temjir þér.

Með þetta nesti vill kirkjan þín minna þig á hver þú ert og hvers þú ert. Við snúum ekki stundaglasi tímans við, það tæmist eftir sínum lögmálum. Við verðum að láta ljósið lifa, við verðum að taka því sem lífið færir okkur, góðu og slæmu. En við eigum rétt á að hafa skoðun og tilfinningar, tala röddu réttlætis og sanngirni, að trúmennska og ábyrgð séu virt og við fáum að vita þegar hinar fávísu meyjar horfa á slokknað ljósið og ljósmetið er þrotið.

Margir eru þeir sem hafa í lífi sínu gefið sér tíma og fyrirhöfn til að þessi veruleiki sem Biblían tjáir og túlkar berist sem víðast til uppbyggingar manneskjunni. Eitt slíkra félaga er Gídeonfélagið. Við skulum nú fá fulltrúa þess hér á landi til að kynna félag sitt og í lok guðsþjónustunnar mun vera frammi karfa fyrir frjáls samskot til styrktar félaginu. Það er enginn þvingaður til framlags en minnumst þess að sérhvert framlag er mikils virði. Guð blessi starf Gídeonfélagsins.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda.

Amen

(Flutt í Fella- og Hólakirkju 16. nóv. 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband