Von jólanna

 

 En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.
Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.

Frelsari fæddurEn í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu."
Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi.

Amen.

 

 

                 Mig huldi dimm og döpur nótt

                 og dauðans broddur nísti,

                 en þú mig fannst, og þýtt og hljótt

                 af þínum degi lýsti.

                 Ó, sól míns lífs, ég lofa þig,

                 sem lífgar, frelsar, blessar mig

                 með guðdómsgeislum þínum.

 

Svo kveður sr. Sigurbjörn Einarsson biskup er lést á árinu í hárri elli, dáður og metinn fyrir einlæga trú sína, skáldgáfu og það allt fallega og góðlega sem prýddi þann einlæga vin og kirkjuhöfðingja. Kannski voru jólin enn stærri en venjulega þegar hann talaði og prédikaði og því fannst mér viðeigandi, kæru vinir, að óska ykkur öllum gleðilegra jóla nú í kvöld með orðum þess manns sem ætíð kom mér í best jólaskap um leið og ég minnist hans með þakklæti og virðingu.

Það er stundum eins og það verði örlítið spennufall í mannlífinu á þessu dásamlega kvöldi, aðfangadagskvöldi. Að baki er aðventan, undirbúningurinn, þessi annatími þegar við undirbúum jólin, stundum hávaðasamur og æstur. Og svo eru þeir líka til sem láta þennan fyrirgang ekki raska sér í neinu, heldur halda rósemi sinni og undirbúa jólin sín í ró og næði. Samt-samt er það svo að á þessu kvöldi er eins og allt verði hljótt á ný, það er eitthvað mikið í loftinu. Það eru að komin jól. Niður hinna annasömu daga þagnar og rósemin tekur völdin á ný. Og innan fárra daga verður lífið aftur komið í sinna vanalega farveg.

En það fór ekki fram hjá okkur að síðustu mánuðir hafa verið einstakir umbrotatímar í þjóðfélagi okkar. Fjármálakreppa, hrun bankanna, atvinnuleysi og umbylting nánast alls í okkar samfélagi hefur að vonum verið fyrirferðamikið umræðuefni og eðlilega deiluefni. Margir hafa tapað að ósekju, saklaust fólk sem trúði og treysti stofnunum samfélagsins fyrir eigum sínum situr nú margt hvað svikið og svipt eigum sínum, áformum sínum, vonum sínum og væntingum, vinnu sinni og fjárhagslegu og félagslegu öryggi. Er nema von að reiði grípi um sig og sér í lagi þegar því var haldið fram að þessi ósköp væru þjóðinni að kenna, hinum almenna launamanni sem ekkert hafði til saka unnið nema það eitt að njóta þess sem arður vinnunnar færði og beitti þar engum brögðum. En við horfum upp á að ákveðnir einstaklingar hafa ekki farið eftir viðurkenndum reglum. Kannski svíður okkur mest að enginn biðst afsökunar, enginn virðist iðrast, enginn virðist ætla að axla ábyrgð. Vís maður sagði á fundi er ég sat nýlega: Þessi kreppa er að ofan, undirstöður samfélagsins eru traustar. Svona greining á vandanum kann að vera rétt. Við sveltum ekki né búum við hörmungar en saklaust fólk er að tapa eigum sínum og þarf að eignast og sjá von um að úr rætist.

Svo koma jólin inn í þennan harða veruleika, jól sem tala um lítið barn og móður þess, engla og hirða. Er þetta ekki einhver þversögn í lífinu?

Trú, kristin trú hefur vakið von í vonlausu brjósti. Von trúarinnar hélt lífinu bókstaflega í þjóðfélagi okkar sem á sínum tíma bjó við algjöra örbirgð og skort. Trúin færir þér í kvöld gjöf vonarinnar og trúarinnar sem kallar fram það besta sem þú átt í huga þínum, víkur burt reiði og kvíða þó síðar verði. Þú átt von á gjöf, þú fagnar í kvöld yfir því að mega taka við gjöf sem er þér einhvers virði, voninni, fyrirheitinu um að líf í myrkri, ljósi í dimmu daga, dimmu hið ytra sem í innsta hugskoti. Jólin hafa ætíð kallað fram djörfung kristinnar vonar, gefið kraft til að bindast böndum samstöðu og kjarks til að gera lífið betra.

Í kvöld á helgu kvöldi aðfangadags kemur þú í kirkju til þess að heyra það og skilja og játa og þú átt von á gjöf, honum, barninu sem var nefndur Jesús. Þrátt fyrir allt umstangið og tilboðin sem hafa hljómað í eyrum þér undanfarnar vikur, þrátt fyrir þau tíðindi að erfiðleikar séu í þjóðfélagi okkar og harðir tímar séu framundan þá hefur það ekki og mun ekki þagga niður þann tón jólanna að "Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn". Það er gjöfin sem Guð gefur þér nú og ætíð: Hann, Jesús, það eru jólin þín að heyra það og þiggja í auðmýkt, þiggja það allt tímanlegt og eilíft sem Jesús boðar og gefur.

Í okkar brothættu veröld er þessi boðskapur einstakur og skiptir okkur máli. Við sem höfum fram að þessu búið við allsnægtir og ofgnótt í flestu á ytra borði, í fæðu og klæði, í híbýlum og hvers kyns tækjum og tólum er það nauðsynlegt að gefa gaum þessum boðskap jólanna um Jesús, sem fæddur er. Því lífið er svo langtum meira en þetta ytra borð, hin sýnilegi veruleiki. Kirkjan hefur í boðun sinni undanfarin ár varað við þessum eltingarleik eftir auðmagni og varað við afleiðingum taumlausrar neyslu. Þess í stað hefur hún bent á velferð sálarinnar, velferð hins innra lífs sem bærist í hjarta þér og gerir þig að manneskju. Inni í okkur sjálfum er mannlegt líf, þar bærast tilfinningar og skoðanir, viðhorf og væntingar sem ekkert á hinu ytra borði fær breytt. Þessu innra lífi okkar þurfum við að hlúa að og næra nú sem aldrei fyrr til að höndla gleðina aftur. Við þurfum að lifa í trúarlegri ræktarsemi og alúð við mennskuna og hið guðlega sjónarhorn lífs okkar. Hinn ytri veruleiki lífsins gerir okkur ekki frjáls, þvert á móti, getur bundið okkur í þrælsfjötra. Það er hið innra viðhorf, hinn andlegi styrkur sem getur skipt sköpum í lífinu þegar við stöndum andspænis staðreyndum lífsins, þægilegum sem óþægilegum. Og það er gjöf jólanna sem færir okkur sannindin um það, að þennan andlega styrk færir Jesús okkur, styrkur trúarinnar stenst þegar allt annað þrýtur.

Jólin eru gefin þér sem eins konar fyrirheit um þetta, þú átt það í vændum að verða Guðs barn, helgað honum sem á jólum kom í þennan heim sem barnið í jötunni, sá sami og síðar yfirgaf gröfina til að þú mættir lifa-að eilífu.

Um allt þetta snúast hin kristnu jól, um vonina sem er Jesús. Kristin jól eiga erindi við hjarta þitt, við hugarþel þitt og innsta kjarna vitundar þinnar. Þau boða þér það, að þú átt það sem er öllu öðru æðra og meira og stærra og mikilfenglegra sem er hinn nýfæddi Jesús, frelsari þinn og sá sem kominn til þess auðga líf þitt og gefa þér hlutdeild í dýrð himinsins. Þau boða ljós í myrkri, boða von þegar vonleysið herjar á móti, lifandi von sem er grundvölluð í fæðingu, lífi, dauða og upprisu hans sem á jólum er gefinn mér og þér. Það er Guð sem kemur til okkar í mynd þessa barns, það er hann sem er kominn til þess að láta ljósið renna upp rétt eins og við sjáum í náttúrunni hið ytra, þegar daginn fer að lengja og myrkrið að hopa.

Jólin eiga sér svo sterka skírskotun til lífs okkar að það er eins og fátt nái að kæfa þau. En um jólin þarf samt ekki að tala því þau tala sjálf með miklu áhrifameiri hætti. Mál þeirra er einstakt og eru þér mikill fögnuður ef þú aðeins gefur þér tóm til að hlusta og nema. Þau tala ekki með vísindalegum hætti um mátt Guðs og stórmerki. Þau tala um barn. Jólin tala um mannsbarn sem Guð hafði velþóknun á. Þau tala um foreldra og fátækt fólk sem átti fá skjól og lítið af þessa heims auðævum. Er hægt að hugsa sér nokkuð jarðbundnara? Og jólin tala um það að þú ert til og Guð er til, að Guð vill elska þig og mig, eiga okkur, bjarga okkur og blessa okkur. Þetta segja jólin okkur. Alla vill Guð elska og eiga. Því þér er frelsari fæddur, ungbarn í jötu. Þetta er mál jólanna og talar sjálft og hittir okkur í hjartastað. Ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast skal öllum, yður er í dag frelsari fæddur sem er Drottinn Kristur, sagði engillinn forðum. Það er ítrekað á þessu kvöldi.

Guð gefi okkur að eignast þennan fögnuð jólanna, ljósið eilífa sem boðar frið og frelsi, hátíð sem hrekur burt allt það sem kennt er við myrkrið. Guð gefi þér í kvöld og alltaf gleðileg jól í Jesú nafni.

Amen.

 

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda.

Amen

Prédikun flutt í Fella- og Hólakirkju 24, desember kl. 23:30


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband