Framtíðin - tími ógnana eða tækifæra?

 

Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp." (Lúk. 13:6-9)

Biðjum með orðum Páls Jónssonar:

Með nýju ári nú vér biðjum, / að nýjan mátt oss gefir þú,

svo þér til dýrðar allt vér iðjum / með elsku, hlýðni' og sannri trú.

Þinn helgur andi leggi' oss lið, / svo lesti' og syndir skiljumst við.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi.

Amen

Það kveður í kvöld, árið 2008, kveður okkur eins og lúinn öldungur sem gengur burt frá okkur og við munum ekki hitta hann aftur. Árið hverfur og nýtt mun heilsa á miðnætti og fylgja okkur næstu 12 mánuði.

Það hefur verið viðburðarríkt þetta ár sem er að kveðja, viðburðarríkt og sögulegt, afdrifaríkt í meira lagi fyrir okkur öll sem þjóð. Vissulega eigum við hvert og eitt okkar eigin minningar, góðar sem slæmar, um ýmislegt sem kom fyrir í lífi okkar og fjölskyldu okkar á árinu. Sumir munu í kvöld kveðja árið og allt sem það færði með söknuði, aðrir með fögnuði. Hvort heldur er, þá er það ljóst að árið sem senn kveður mun með einhverjum hætti lifa í minningunni og verða vitnað til þess þegar við lítum til baka.

Um hitt getum við sjálfsagt öll verið sammála að sjaldan ef nokkurn tíma höfum við sem þjóð, sem samfélag, kvatt ár sem svo örlagaríkt hefur reynst okkur öllum. Sumir þeirra sem rýna í sögu og samfélagsmál hafa jafnvel haldið því fram að atburðir þessa aldna árs hafi haft svo víðtæk áhrif á íslenskt þjóðfélag og vart sé hægt að finna nokkuð ár í sögu þjóðarinnar sem jafnist á við þetta.

Á þessu ári sem í kvöld kveður hafa orðið þvílík umskipti á flestum sviðum þjóðfélagsins að með ólíkindum er. Þjóð, sem talin var og taldi sig vera, meðal auðugustu þjóða veraldar, þjóð sem gat leyft sér nánast hvað sem er, þjóð með þróttmikið og sterkt atvinnulíf, var virt á alþjóðavettvangi, vel menntuð, með samhjálp og þjóðfélagsgerð sem til fyrirmyndar var, varð nánast á einni nóttu gjaldþrota, niðurlægð og Íslendingar í augum annarra þjóða nánast glatað sínu góða orðspori.

En svona hamförum fylgir eðlilega mikil reiði í samfélaginu, reiði og kvíði þegar grundvöllur daglegs lífs og framtíðar er raskað með svo afdrifaríkum hætti. Við skulum ekki vanmeta reiði fólks sem nú hefur misst, ekki gera lítið úr þeim kvíða sem sest að í brjóstum þeirra sem voru blekktir með einum eða öðrum hætti og glötuðu hluta eigna sinna. Þessu fólki þarf að sinna og yfirvöld verða að taka tillit til tilfinninga þess og líðan. Það virðist ljóst að íslenskt samfélag verður aldrei samt að nýju. Þessir atburðir hafa skapað hjá almenningi endurmat á gildismati sem við tileinkum okkur. Kannski er það það eina jákvæða við þessa atburði alla að við sem þjóð gefum okkur nú tíma og ráðrúm til að endurmeta okkur sjálf, endurmeta þau gildi og þá samfélagsgerð sem við viljum búa við.

Það var athyglisvert viðtal við þann mæta mann, Pál Skúlason, heimspeking og fyrrum rektor Háskóla Íslands, í sjónvarpinu s.l. sunnudagskvöld. Þar nefndi hann m.a. þessa nauðsyn á að við sem þjóð og samfélag hefðum nú tækifæri til að endurmóta og tileinka okkur þau gildi og það gildismat sem við teldum þjóna lífsviðhorfum okkar. Hann nefndi skipbrot markaðshyggjunnar, þeirra gilda sem við höfum, nauðug viljug, fylgt undanfarin ár, þar sem lífshamingjan er talin felast í lögmálum markaðarins og samkeppninnar, eignahyggjan, að vilja eignast allt, að allt sé falt fyrir peninga. Peningahyggjan og taumlaus trú á afl og mátt auðmagns hefur mótað samfélag okkar og gildismat meir en nokkuð annað, beinlínis mótað samfélagsumræðuna. Æðsta lífshamingjan hefur verið talin að eiga sem mest, búa sem best, vera fremri öðrum að auði og völdum og því hampað ótæpilega. En innst inni er þetta ekki það sem sálin og lífssýn okkar leitar að. Því höfum við anað áfram þar til við rekumst á og allt hrynur í kringum okkur. Og einmitt þá, nefndi Páll, er svo brýnt að við endurmetum lífsgildin og drögum fram þau gildi og verðmæti sem gera okkur að manneskjum, gera okkur að þjóð sem býr við andlegar nægtir og sátt, býr við frið við sjálfa sig, sem sér náunga sinn í réttu ljósi samvinnu og umhyggju.

Og nú um áramót, sem ætíð reyndar, ætti það að vera keppikefli okkar að fara nú ekki að skapa gömlu þjóðfélagsmyndina upp á nýtt, heldur gefa okkur tíma og ráðrúm til að breyta og bylta því gamla og lúna en fægja þau gildi sem við vitum að færa okkur nýja sýn á heiminn og okkur sjálf, leita að því tré og þeim ávöxtum sem gera okkur að sómakærum og góðum manneskjum. Við þurfum að siðbæta samfélagið okkar, hefja samtal og samráð um að endurskapa samfélag samhjálpar og virðingar fyrir þeim arfi og menningu, trú og siðum, lífsgildum sem byggja upp heilbrigt og siðlegt samfélag. Það þarf að gerast á grundvelli lýðræðis þar sem allir taka þátt í samræðum og samtali, móta sér hugmyndir um samfélag sáttar og friðar, samvinnu og samkenndar þar sem gildi auðmagns og samkeppni er ýtt til hliðar. Í öldudal kreppunnar felast nefnilega tækifæri til að umskapa samfélagið, efla lýðræði og skapandi hugmyndir, þar sem einstaklingurinn fær tækifæri til að skapa eigið umhverfi og líf en við framseljum ekki hugsjónir okkar og gildismat í hendur þess fólks sem hefur brugðist okkur. Slík vinna er spennandi og við höfum alla möguleika til að takast á við hana. Það verður spennandi ár sem við tekur ef við berum gæfu til að hugsa, skapa og gefa gildum mennskunnar, umhyggjunnar, trúarinnar meira vægi

Í guðspjalli gamlársdags er einmitt talað um fíkjutréð sem bar ekki ávöxt og átti því að fella það. En eitt ár enn átti það að standa til að sjá hvort það myndi bera ávöxt. Í þessari dæmisögu er einmitt fjallað um tilgangsleysi þeirra hluta og hugmynda sem ekki bera ávöxt í lífi manneskjunnar, verða henni ekki til hamingjuauka. Það þarf að nema á brott allt það sem skaðar og skemmir, allt það sem skilar engu jákvæðu. Þess í stað þarf að gróðursetja á lífsbraut okkar þau góðu gildin, trú, menningu, sögu og tungu sem skapa í hverri manneskju þá lífsánægju sem því fylgir að lifa í sátt við umhverfið, sjálfan sig og náungann. Til þess skapaði Guð okkur að aðhyllast hin góðu gildi en skera burt þau gildi sem meiða og skaða.

Kristin trú og kirkja á það erindi við veröld sína og samtíma að skerpa hin góðu gildi og standa vörð um heilbirgði lífsins. Kristin trú hefur alltaf varað við gildum markaðshyggjunnar þar sem veraldlegar eignir og auðsöfnun eru talin sáluhjálparatriði. Kristin trú er trú hins innra í manneskjunni, trú þeirra gilda sem gerir manneskjuna hamingjusama og meðvitaða um tilgang og eðli lífsins. Mættum við að kvöldi þessa gamla árs varpa frá okkur nauðhyggju manneskjunnar sem hefur þjakað okkur og heilsa nýju ári með þá von fyrir augum og bæn í brjósti að góður Guð leiði okkur þann lífsins veg sem framundan er á nýju ári með gildi samhygðar og jákvæðrar sköpunar fyrir augum. Þannig getum við saman búið okkur nýtt samfélag á grunni þeirra gilda sem við teljum okkur til blessunar, valið okkur leiðtoga og forystufólk sem vill þjóna okkur til að ná saman því markmiði sem við teljum best. Það kann að taka tíma en þeim tíma er vel varið.

Guði þökkum við góða atburði þess árs sem senn kveður. Biðjum Guð að blessa okkur nýtt ár og megi hann blessa íslenska þjóð á komandi tímum.

Og nú í kvöld í síðustu messu þessa árs vil ég þakka söfnuði mínum hér í Fella- og Hólakirkju fyrir þetta ár sem kveður. Ég þakka þá vinsemd, hlýju og trúnað sem mér hefur verið sýndur bæði á gleði- sem sorgarstundum þessa safnaðar sem mér hefur verið falið að þjóna. Samstarfsprestum mínum, djákna, kirkjuvörðum og meðhjálpurum, barna- og æskulýðsfulltrúa og hennar samstarfsfólki, skrifstofumanni, sóknarnefndafólki, organistunum og söngstjórunum okkar, félögum í kirkjukórnum og öðrum þakka ég gott og heilladrjúgt samstarf. Síðast en ekki síst þakka ég öllum þeim sem hingað sækja helgihaldið og vona að við sem hér leiðum starf stöndum undir væntingum og þeirri ábyrgð sem góður Guð leggur á okkur að fylgja. Nú er að líða afmælisár kirkjunnar okkar. Margt var gert í tilefni þess, það var notalegt að finna alla þá vinsemd, hlýhug og jákvæðni sem einkenndi allt kirkjustarfið og hve vel var brugðist við hjá þeim sem til var leitað af því tilefni. Guði þakka ég fyrir það framlag ykkar allt og hann blessi ykkur öll á nýju ári. Gleðilegt nýtt á, kæru vinir, þökk fyrir þau liðnu. Friðarins Guð leiði og blessi öll okkar verk og vaki yfir kirkju sinni og söfnuðum hér í Fella- og Hólahverfi sem víðar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda.

Amen

(Prédikun flutt í Fella- og Hólakirkju við aftansöng á gamlárskvöld 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband