Færsluflokkur: Bloggar

Gjafir Guðs - ábyrgð manns

 

Guðspjallið: Matteus 25:14-30

Svo er um himnaríki sem mann er ætlaði úr landi. Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gerði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það.
Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gera skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm. Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.
Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær. Og húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.
Loks kom sá er fékk eina talentu og sagði: Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.
Og húsbóndi hans sagði við hann: Illi og lati þjónn, þú vissir að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim. Takið af honum talentuna og fáið þeim sem hefur tíu talenturnar. Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.

†     †     †

Lærdómstími ævin er.
             Ó, minn drottinn, veit ég geti,
           numið allt sem þóknast þér,
   þína speki dýrast meti.
         Gef ég sannleiks gulli safni,
         gef í visku og náð ég dafni.

                                                                                               (Helgi Hálfdánarson)

Amen

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi.

Amen

 

Ábyrgð - hæfileikar. Þetta eru gildishlaðin orð sem tjá mikilvægan veruleika í lífi okkar og tilveru allri. Fullyrða má að því fylgi mikil ábyrgð að búa yfir miklum hæfileikum, miðla af mannkostum sínum. Ábyrgð og hæfileikar. Það er mikilvægt að við gefum þessu hvortveggja gaum. Við lifum í mannlegu samfélagi þar sem Guð ætlast til þess af okkur að við nýtum hæfileika okkur, sjálfum okkur en þó fyrst og síðast öðrum til gagns og hamingju. Og ekki minna er um vert að við í lífi og starfi komum fram af ábyrgð, berum ábyrgð, kunnum að axla ábyrgð, sýnum það og sönnum að ábyrgðin er einn af hornsteinum þess að vera siðuð og trúuð manneskja.

 Við sitjum í raun á þessum morgni við fótskör Jesú og heyrum þessa mikilhæfu dæmisögu hans um talenturnar og þjónana, dæmisögu um hæfileika og ábyrgð. Þessi dæmisaga er ekki sagnfræði. Þetta er dæmisaga lífs míns og lífs þíns, dæmisaga lífs hverrar manneskju, óháð tíma og rúmi, stundum þó ágengari en ella.

Þessi dæmisaga lýsir hvernig Guð deilir út hæfileikum, lýsir áhuganum sem hann hefur á því hvernig þjónarnir, þú, ég og allir aðrir, spila úr þeim hæfileikum og náðargáfum sem við höfum. Hún lýsir líka hvernig Guð metur og gerir kröfu um ábyrgð okkar á þessum gjöfum hans. Persónur þessarar dæmisögu eru nefnilega Guð og manneskjan, þessar ólíku og oft sundurleitu manneskjur sem við öll erum. Dæmisagan er um húsbónda og þjóna hans þrjá sem var trúað fyrir verðmætum meðan hann færi burtu tímabundið. Þeim voru gefnir mismiklir hæfileikar, sjálfsagt eftir mati húsbóndans. Og eðlilega ætlaðist hann til þess að þjónarnir hagnýttu  hver sinn skerf til uppbyggingar búsins, talenturnar voru hugsaðar sem afl þeirra hluta sem gera þurfti. Þegar húsbóndinn kemur þá er spurt: Hvað gerðir þú við þitt? Hvernig ávaxtaðir þú þann skerf sem ég fól þér til varðveislu? Þannig spyr Guð þig enn, spyr þig einhvern tíma um það hvernig þú fórst með hæfileika þína sem hann gaf þér, hvernig þú skildir ábyrgð þína.

Hæfileikar okkar gilda reyndar ekki bara á afmörkuðum vettvangi mannlegra samskipta, heldur í öllu okkar atferli, þar á meðal ráðstöfun fjármagns og í viðskiptum á vettvangi dagsins. Hvar sem við erum og hvað sem við gerum reiknar Guð ekki með því að við gröfum hæfileika okkar, vit, sannfæringu né lífsgildi í jörð því þá megna þau ekki að blómstra og koma okkur og því fólki sem erum í samskiptum við til góða.

En hver er búgarður nútímans? Við lifum nú einstaka umbrotatíma í samfélagi okkar. Í búgarði okkar á sér nú stað endurmat ýmissa gilda og lífsverðmæta. Við höfum undanfarin misseri séð hag okkar og ytri skilyrði rísa í hæstu hæðir og svo hrynja niður í dimmustu dali. Þjóð sem gat leyft sér margt er nú í raun orðin að bónbjargarfólki, hefur misst hluta af stoltri sjálfsmynd og glatað orðspori sínu í samfélagi þjóðanna. Við sáum margt fólk sýna mikla hæfileika og kannski klókindi í ávöxtun auðævanna. En um leið hefur komið í ljós að ábyrgðin brást, græðgin og hrokinn ýttu ábyrgðinni frá og við misstum traustið sem við bárum í brjósti um að allt væri eftir settum reglum.

Og samfélagið spyr sig margra og áleitinna spurninga: Hvernig gat þetta gerst, hvað fór úrskeiðis? Kannski er það verst af öllu að við teljum okkur ekki hafa fengið svör sem við skiljum né getum sætt okkur við. Og reiðin og sorgin, kvíðinn og ásökunin fær eðlilega útrás í harðri orðræðu og jafnvel átökum á götum úti. Það er að flestu leyti skiljanlegt og við þurfum svo sem ekki að óttast það. Það er bæði heilbrigt, eðlilegt og jákvætt að almenningur sem finnst hann vera svikin skuli láta í sér heyra, þora að sýna hug sinn og nýta sér þann lýðræðislega rétt að krefjast ábyrgðar þeirra sem ábyrgðina bera og vera reiðubúin að takast á við endurreisnina. Í þeim friðsömu mótmælum og innri átökum, í þessu endurmati og kröfu um upplýsingar er í raun fólgin mikill kraftur, sköpunarkraftur sem getur hjálpað okkur. Ofbeldi gagnast engum og ber að harma. En opinská, heiðarleg, opinber umræða og skoðanaskipti eru nauðsynleg. Góð og uppbyggjandi samræða gefur okkur von um að við munum þokast upp úr dalnum og ná að endurbyggja samfélag okkar með öðrum áherslum, endurvinna traust og ábyrgð, leita eftir sátt í samfélaginu.

Í því verkefni sem við stöndum nú frammi fyrir þá verðum við að nýta þá hæfileika sem hverju okkar eru gefnir, taka höndum saman um að skapa að nýju samfélag réttlætis og jafnaðar, samfélag sem nýtur virðingar og trausts okkar sjálfra og í samfélagi þjóðanna. Það er ekki auðvelt verk og verður ekki gert í fljótheitum. Og því fylgir sársauki og fórnir En við verðum að trúa því og treysta að við berum gæfu til að feta okkur að þeim markmiðum sem við erum sammála um að ná.

Það hefur mikið verið rætt undanfarið um lífsgildin, þau viðmið sem við viljum hafa til að vera sjálfstæð og siðleg þjóð. Það er talað um að endurmeta og skerpa þau gildi og gildismat sem hafa reynst besta vegarnesti þjóðar okkar á tímum góðæris sem hallæris í sögu okkar. "Er leiðsagnar að vænta frá Jesú Kristi í uppbyggingarferlinu?" spyr ágætur guðfræðingur á vefsíðu Þjóðkirkjunnar. Áleitin spurning og gagnleg. Kristin kirkja og kristin trú hefur verið förunautur þjóðar okkar nær alla sögu hennar, ætíð lagt áherslu í boðun og bæn á mikilvægi hinna góðu gilda eins og trúmennsku, ábyrgðar, virðingar fyrir hæfileikum. Kristin kirkja hefur boðað þessi gildi, hvatt þjóðina til að tileinka sér þau í orði og verki, varað við græðgi og sérhyggju, umvafið þjóðina, talsmenn hennar og opinberar stofnanir bænarörmum í trú á góðan Guð, hvatt einstaklinga til að fylgja orðum Jesú Krists eins og þau birtast okkur, orðum um ábyrgð og samkennd með öðrum. Trú er í eðli sínu traust, traust á handleiðslu Guðs í meðbyr sem mótlæti lífsins.

Og það er einmitt þetta skýra traust sem þarf að vera leiðarljós inn í óræða framtíð, traust á okkur sjálf, traust á þá sem við kjósum og veljum til forystu, traust á þá sem fara með málefni samfélagsins, traust á að réttlætið fái framgang, já umfram allt traust á hinn lifandi Guð sem mun leiða okkur um ókomna tíð eins og hann hefur leitt okkur gegnum aldirnar. Ávöxtur trúar og trausts er ábyrgðin, heiðarleikinn, skynsöm meðferð hæfileika okkar. Slíka leiðsögn samhjálpar og samstöðu boðar Kristur.

 Jesús sýnir okkur hugsun Guðs. Hann talaði ekki í barnslegum einfeldningsskap um gildi lífsins. Hann sá gildin verða að veruleika fyrst og fremst í mannlegum athöfnum. Orð hafa lítið gildi ef þeim er ekki fylgt eftir í verki. Ábyrgð fær aldrei gildi við það eitt að mæla orðið af vörum fram. Það verður fyrst einhvers virði þegar ábyrgðin er öxluð og tjáð í athöfnum mannlegs lífs í samfélagi okkar. Líkt er farið með flest öll gildi mannlegs lífs. Þau þurfa að finna sér farveg í hinu lifaða lífi, vera verkefni hvers dags sem Guð gefur okkur.

Hæfileikum okkar þurfa því vissulega að fylgja ábyrgð. Dæmisaga þessa sunnudags er eins og spegill að þessu leyti. Þegar þú horfir á mynd þess í speglinum þínum getur þú spurt: Hverjum af þjónunum þremur vil ég líkjast í mínu lífi?

Í lexíu dagsins standa m.a. þessi orð: "Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig inn í gott land, inn í land með lækjum, lindum og uppsprettum sem streyma fram í dölum og á fjöllum. ...Þú skalt ekki hugsa með þér: „Ég hef aflað þessara auðæfa með eigin afli og styrk handar minnar." Minnstu heldur Drottins, Guðs þíns, því að það var hann sem gaf þér styrk til að afla auðs til þess að standa við sáttmálann sem hann sór feðrum þínum eins og hann gerir enn í dag".

Þetta er fyrirheit og von kristinnar trúar. Guð gefur styrk til að leiða okkur inn í land með lækjum, lindum og uppsprettum. Nýtum hæfileika okkar til að feta saman þá leið með hin góðu gildi ábyrgðar, trausts og hófsemdar sem vegstikur og Guð sem förunaut. Það er erindi Jesú við þig í dag.

(Prédikun flutt í Fella- og Hólakirkju 8. febrúar 2009)


Framtíðin - tími ógnana eða tækifæra?

 

Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp." (Lúk. 13:6-9)

Biðjum með orðum Páls Jónssonar:

Með nýju ári nú vér biðjum, / að nýjan mátt oss gefir þú,

svo þér til dýrðar allt vér iðjum / með elsku, hlýðni' og sannri trú.

Þinn helgur andi leggi' oss lið, / svo lesti' og syndir skiljumst við.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi.

Amen

Það kveður í kvöld, árið 2008, kveður okkur eins og lúinn öldungur sem gengur burt frá okkur og við munum ekki hitta hann aftur. Árið hverfur og nýtt mun heilsa á miðnætti og fylgja okkur næstu 12 mánuði.

Það hefur verið viðburðarríkt þetta ár sem er að kveðja, viðburðarríkt og sögulegt, afdrifaríkt í meira lagi fyrir okkur öll sem þjóð. Vissulega eigum við hvert og eitt okkar eigin minningar, góðar sem slæmar, um ýmislegt sem kom fyrir í lífi okkar og fjölskyldu okkar á árinu. Sumir munu í kvöld kveðja árið og allt sem það færði með söknuði, aðrir með fögnuði. Hvort heldur er, þá er það ljóst að árið sem senn kveður mun með einhverjum hætti lifa í minningunni og verða vitnað til þess þegar við lítum til baka.

Um hitt getum við sjálfsagt öll verið sammála að sjaldan ef nokkurn tíma höfum við sem þjóð, sem samfélag, kvatt ár sem svo örlagaríkt hefur reynst okkur öllum. Sumir þeirra sem rýna í sögu og samfélagsmál hafa jafnvel haldið því fram að atburðir þessa aldna árs hafi haft svo víðtæk áhrif á íslenskt þjóðfélag og vart sé hægt að finna nokkuð ár í sögu þjóðarinnar sem jafnist á við þetta.

Á þessu ári sem í kvöld kveður hafa orðið þvílík umskipti á flestum sviðum þjóðfélagsins að með ólíkindum er. Þjóð, sem talin var og taldi sig vera, meðal auðugustu þjóða veraldar, þjóð sem gat leyft sér nánast hvað sem er, þjóð með þróttmikið og sterkt atvinnulíf, var virt á alþjóðavettvangi, vel menntuð, með samhjálp og þjóðfélagsgerð sem til fyrirmyndar var, varð nánast á einni nóttu gjaldþrota, niðurlægð og Íslendingar í augum annarra þjóða nánast glatað sínu góða orðspori.

En svona hamförum fylgir eðlilega mikil reiði í samfélaginu, reiði og kvíði þegar grundvöllur daglegs lífs og framtíðar er raskað með svo afdrifaríkum hætti. Við skulum ekki vanmeta reiði fólks sem nú hefur misst, ekki gera lítið úr þeim kvíða sem sest að í brjóstum þeirra sem voru blekktir með einum eða öðrum hætti og glötuðu hluta eigna sinna. Þessu fólki þarf að sinna og yfirvöld verða að taka tillit til tilfinninga þess og líðan. Það virðist ljóst að íslenskt samfélag verður aldrei samt að nýju. Þessir atburðir hafa skapað hjá almenningi endurmat á gildismati sem við tileinkum okkur. Kannski er það það eina jákvæða við þessa atburði alla að við sem þjóð gefum okkur nú tíma og ráðrúm til að endurmeta okkur sjálf, endurmeta þau gildi og þá samfélagsgerð sem við viljum búa við.

Það var athyglisvert viðtal við þann mæta mann, Pál Skúlason, heimspeking og fyrrum rektor Háskóla Íslands, í sjónvarpinu s.l. sunnudagskvöld. Þar nefndi hann m.a. þessa nauðsyn á að við sem þjóð og samfélag hefðum nú tækifæri til að endurmóta og tileinka okkur þau gildi og það gildismat sem við teldum þjóna lífsviðhorfum okkar. Hann nefndi skipbrot markaðshyggjunnar, þeirra gilda sem við höfum, nauðug viljug, fylgt undanfarin ár, þar sem lífshamingjan er talin felast í lögmálum markaðarins og samkeppninnar, eignahyggjan, að vilja eignast allt, að allt sé falt fyrir peninga. Peningahyggjan og taumlaus trú á afl og mátt auðmagns hefur mótað samfélag okkar og gildismat meir en nokkuð annað, beinlínis mótað samfélagsumræðuna. Æðsta lífshamingjan hefur verið talin að eiga sem mest, búa sem best, vera fremri öðrum að auði og völdum og því hampað ótæpilega. En innst inni er þetta ekki það sem sálin og lífssýn okkar leitar að. Því höfum við anað áfram þar til við rekumst á og allt hrynur í kringum okkur. Og einmitt þá, nefndi Páll, er svo brýnt að við endurmetum lífsgildin og drögum fram þau gildi og verðmæti sem gera okkur að manneskjum, gera okkur að þjóð sem býr við andlegar nægtir og sátt, býr við frið við sjálfa sig, sem sér náunga sinn í réttu ljósi samvinnu og umhyggju.

Og nú um áramót, sem ætíð reyndar, ætti það að vera keppikefli okkar að fara nú ekki að skapa gömlu þjóðfélagsmyndina upp á nýtt, heldur gefa okkur tíma og ráðrúm til að breyta og bylta því gamla og lúna en fægja þau gildi sem við vitum að færa okkur nýja sýn á heiminn og okkur sjálf, leita að því tré og þeim ávöxtum sem gera okkur að sómakærum og góðum manneskjum. Við þurfum að siðbæta samfélagið okkar, hefja samtal og samráð um að endurskapa samfélag samhjálpar og virðingar fyrir þeim arfi og menningu, trú og siðum, lífsgildum sem byggja upp heilbrigt og siðlegt samfélag. Það þarf að gerast á grundvelli lýðræðis þar sem allir taka þátt í samræðum og samtali, móta sér hugmyndir um samfélag sáttar og friðar, samvinnu og samkenndar þar sem gildi auðmagns og samkeppni er ýtt til hliðar. Í öldudal kreppunnar felast nefnilega tækifæri til að umskapa samfélagið, efla lýðræði og skapandi hugmyndir, þar sem einstaklingurinn fær tækifæri til að skapa eigið umhverfi og líf en við framseljum ekki hugsjónir okkar og gildismat í hendur þess fólks sem hefur brugðist okkur. Slík vinna er spennandi og við höfum alla möguleika til að takast á við hana. Það verður spennandi ár sem við tekur ef við berum gæfu til að hugsa, skapa og gefa gildum mennskunnar, umhyggjunnar, trúarinnar meira vægi

Í guðspjalli gamlársdags er einmitt talað um fíkjutréð sem bar ekki ávöxt og átti því að fella það. En eitt ár enn átti það að standa til að sjá hvort það myndi bera ávöxt. Í þessari dæmisögu er einmitt fjallað um tilgangsleysi þeirra hluta og hugmynda sem ekki bera ávöxt í lífi manneskjunnar, verða henni ekki til hamingjuauka. Það þarf að nema á brott allt það sem skaðar og skemmir, allt það sem skilar engu jákvæðu. Þess í stað þarf að gróðursetja á lífsbraut okkar þau góðu gildin, trú, menningu, sögu og tungu sem skapa í hverri manneskju þá lífsánægju sem því fylgir að lifa í sátt við umhverfið, sjálfan sig og náungann. Til þess skapaði Guð okkur að aðhyllast hin góðu gildi en skera burt þau gildi sem meiða og skaða.

Kristin trú og kirkja á það erindi við veröld sína og samtíma að skerpa hin góðu gildi og standa vörð um heilbirgði lífsins. Kristin trú hefur alltaf varað við gildum markaðshyggjunnar þar sem veraldlegar eignir og auðsöfnun eru talin sáluhjálparatriði. Kristin trú er trú hins innra í manneskjunni, trú þeirra gilda sem gerir manneskjuna hamingjusama og meðvitaða um tilgang og eðli lífsins. Mættum við að kvöldi þessa gamla árs varpa frá okkur nauðhyggju manneskjunnar sem hefur þjakað okkur og heilsa nýju ári með þá von fyrir augum og bæn í brjósti að góður Guð leiði okkur þann lífsins veg sem framundan er á nýju ári með gildi samhygðar og jákvæðrar sköpunar fyrir augum. Þannig getum við saman búið okkur nýtt samfélag á grunni þeirra gilda sem við teljum okkur til blessunar, valið okkur leiðtoga og forystufólk sem vill þjóna okkur til að ná saman því markmiði sem við teljum best. Það kann að taka tíma en þeim tíma er vel varið.

Guði þökkum við góða atburði þess árs sem senn kveður. Biðjum Guð að blessa okkur nýtt ár og megi hann blessa íslenska þjóð á komandi tímum.

Og nú í kvöld í síðustu messu þessa árs vil ég þakka söfnuði mínum hér í Fella- og Hólakirkju fyrir þetta ár sem kveður. Ég þakka þá vinsemd, hlýju og trúnað sem mér hefur verið sýndur bæði á gleði- sem sorgarstundum þessa safnaðar sem mér hefur verið falið að þjóna. Samstarfsprestum mínum, djákna, kirkjuvörðum og meðhjálpurum, barna- og æskulýðsfulltrúa og hennar samstarfsfólki, skrifstofumanni, sóknarnefndafólki, organistunum og söngstjórunum okkar, félögum í kirkjukórnum og öðrum þakka ég gott og heilladrjúgt samstarf. Síðast en ekki síst þakka ég öllum þeim sem hingað sækja helgihaldið og vona að við sem hér leiðum starf stöndum undir væntingum og þeirri ábyrgð sem góður Guð leggur á okkur að fylgja. Nú er að líða afmælisár kirkjunnar okkar. Margt var gert í tilefni þess, það var notalegt að finna alla þá vinsemd, hlýhug og jákvæðni sem einkenndi allt kirkjustarfið og hve vel var brugðist við hjá þeim sem til var leitað af því tilefni. Guði þakka ég fyrir það framlag ykkar allt og hann blessi ykkur öll á nýju ári. Gleðilegt nýtt á, kæru vinir, þökk fyrir þau liðnu. Friðarins Guð leiði og blessi öll okkar verk og vaki yfir kirkju sinni og söfnuðum hér í Fella- og Hólahverfi sem víðar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda.

Amen

(Prédikun flutt í Fella- og Hólakirkju við aftansöng á gamlárskvöld 2008)


Matador - spil nútímans?

Orðið varð hold

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.
Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.
Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd.
14Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.

Guð, sem ert ljós í myrkri. Þetta er dagurinn sem þú hefur gjört. Dagur hinnar miklu gleði. Þú kemur á móti okkur þar sem við þreifum okkur áfram í myrkrinu, og sýnir okkur Jesú Krist sem er fagnaðarboði þessa heims og ljós huggunarinnar augum okkar að eilífu. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi.

Amen

Gleðilegrar jólahátíðar óska ég ykkur öllum, kæru vinir sem hér eruð í dag á jóladegi. Vonandi hafið þið átt gott aðfangadagskvöld og megi þessi dagur og þessi yndislega hátíð færa ykkur öllum blessun trúarinnar og helgan frið í hug og hjarta.

 

Hún hafði sérstaklega gaman að því að spila eitt spil sérstaklega -  Matador. Og ég naut þess ungur að hún eyddi mörgum stundum með mér þegar við spiluðum Matador og oft með fleiri þátttakendum. Líkt og hjá systkinum þessarar konu var þessi spilaánægja þó mörkuð þeim leiða vana að þurfa helst alltaf að vinna spilið. Og stundum var meira að segja svindlað pínulítið öðrum til nokkurrar gremju. Best leið henni þegar hún rakaði að sér fé við leigu á húsum, hótelum, verðbréfum og öðru sem þið þekkið sem hafið spilað Matador. Mér fannst það gremjulegt að láta hana hirða af mér alla peningana og játa mig sigraðan. Hún var sigurvegari leiksins. En hún huggaði mig, blessunin, og lofaði að ég ynni næst. Stundum gekk það eftir en ekki alltaf.

Þetta spil snýst nefnilega um peninga, að græða og sópa að sér fé - en allt í leik, í ímynduninni, í raunveruleikalausum heimi. Þar má hafa rangt við án þess að gjalda fyrir nema kannski með súrum svip þeirra sem ekki sigra. Og svo verða allir vinir aftur og hægt að spila á ný.

Með aldrinum tókst mér þó að ná yfirhöndinni og sjá við klækjum hennar. En sama hver vinnur. Í leikslok rennur allt í sama kassann, teningurinn, bílarnir, húsin, hótelin, verðbréfin og peningarnir. Allt rennur það í sama kassann, sömu kistuna, verðlaust glingur, liggur eins og dauðir taflmenn í kassanum. Eins og allt jarðneskt er dauðlegt. Það lendir á endanum í sama kassa dauðleikans og hverfur af sviðinu - horfið, hefur ekkert gildi lengur nema í minningunni.

Á okkur hafa dunið og dynja í fjölmiðlum, í auglýsingum, í skólunum, frá vinum og starfsfélögum að lífið allt hafi það markmið að ná því að verða sigurvegari í leiknum - lífinu. Lífið er kannski þegar öllu er á botninn hvolft eins og að spila Matador. Að safna að sér auðævum og eignum og standa uppi sem sigurvegari, að vinna leikinn. Kannski stundum með svindli, að hafa rangt við. Þeim er hampað sem sigra og þau fá fínu nöfnin og það er kallað á torgum og haldnar fínar veislur til að verðlauna sigurvegarana í Matadorspili lífsins. En almúginn sem tapar stendur þögull hjá og fær að horfa á og sjá fyrirmyndina. En líka þar lendir allt um síðir í kistunni, verðlaust, gagnlaust, færir ekki auð og völd lengur. Sigurvegarinn er gleymdur því nýr leikur mun hefjast innan skamms.

Ég held að við getum innst lært af þessari líkingu. Með einhverjum hætti þurfum við sífellt að muna það óumflýjanlega, að það er sama hve klár, gáfuð, hæfileikarík, dugleg, útsjónarsöm og vel gerð við erum, muna það að við erum dauðlegar manneskjur sem munum aldrei verða sigurvegarar yfir lífinu sjálfu af eigin mætti. Við getum unnið einstaka áfanga en við náum aldrei að sigra lífið sjálft og verða ódauðleg, sigra dauðann.

Þessar vangaveltur hafa sótt á mig undanfarnar vikur. Við höfum séð spilaborg samfélags okkar hrynja á ótrúlega skömmum tíma. Og við stöndum í rústunum og reynum að bjarga því sem bjargað verður. En við kvíðum því sem framundan er, erfiðleikum, mótlæti og áföllum. Samfélagið var í hrikalegu Matador-spili þar sem spilað var með eigur annarra, fjöregg þjóðar, fjármuni að láni, í raun Matador-peninga og eignir. Og sigurvegararnir fengu hrósið og frægðina. Við sem horfðum á fengum að lesa um útrásarvíkingana, hetjurnar, klára fólkið sem virtist allt að því ódauðlegt. Fjölmiðlar sýndu okkur hallirnar þeirra, bílana, flugvélarnar, snekkjurnar, búgarðana í útlöndum. Og við fengum að fylgjast með einkalífi þessa fólks sem sigraði í Matadornum. Glæsileg brúðkaup, ævintýralegar afmælisveislur, heimsreisur með fríðu föruneyti. Sannir víkingar sem voru að sigra, leggja flest að fótum sér - eða hvað?

Svo kom skellurinn. Leiknum lauk skyndilega. En að þessu sinni var enginn sigurvegari. Öllu dótinu var sópað ofan í kistuna - verðlaust dót. En áhorfendur stóðu og standa enn ringlaðir yfir þessum óvæntu leikslokum. Nú tapa þeir þó þeir hafi bara horft á, þeir borga veisluna sem ekkert gerðu nema fylgjast með. Er nema von að almenningur sé reiður, kvíðinn og sár. Það er ekki stórmannlegt að svindla til að reyna að vinna leikinn og vilja verða sigurvegari.

Manneskjan hefur alltaf verið dugleg að skapa myrkur, lifa í myrkri, smíða tól myrkursins. En vill hún það? Viljum við verða börn myrkursins? "Í myrkrum ljómar lífsins sól", segir í jólasálminum fræga, "Þér lof sé Guð fyrir gleðileg jól". Jólin eru ekki leikur, ekki sjónhverfing, ekki plat. Jólin koma til að hrekja myrkrið úr mannheimi á brott, jólin eru vitnisburður um að líf þitt er helgað ljósinu eilífa, Guð tendraði það við jötuna í Jerúsalem. Í bliki augna þess nýfædda barns, Jesú, sérð þú ljós sem lýsir svo sérstaklega fyrir þig, gefur þér og lífi þínu von um að hið góða lýsir en hið vonda slokknar, að réttlætið muni sigra.

"Orðið verð hold og hann bjó með oss fullur náðar og sannleika", segir í guðspjalli jólanna. Lífið er ekki leikur, ekki leikur með auðævi, manneskjur, veruleika. Lífið er alvara, lífið er vegferð þín með Guði þínum, ferð með fyrirheiti þar sem Jesús er þér nær "en geisli á kinn" til að bægja frá þér myrkrinu en beina að þér ljósinu sem fyllir þig von og gleði. Því verður ekki sópað í kistuna til geymslu, gleymsku og glötunar. Það skín eilíflega í lífi þínu og dauða, í eilífð þeirrar vegferðar sem tilvera þín er af því þú ert Guðs barn, þú ert hluti af Guði eins og þú ert hluti af föður þínum og móður.

Hann býr með okkur, Guð er Guð þess sem lifir og mótar lífið í þess fegurstu mynd. Orðið varð hold táknar í raun og veru það að verund Guðs, vilji Guðs og ætlun býr í persónu þess barns sem á jólum fæðist, Jesús Kristur. Allar þær góðu kenndir sem vakna í brjósti þínu, allt það góða í sál þinni, allt það jákvæða og réttláta sem vaknar í huga þínum, öll sú samúð og umhyggja fyrir öðrum sem kviknar innra með þér, öll þau jákvæðu gildi sem þú aðhyllist, já allt þetta og miklu meira er birting þess að orð Guðs verður hold, hans hugsun verður að veruleika. Til þess fæddist Jesús og lifði og dó og reis upp frá dauðum til að gera hugsun Guðs að veruleika. Þetta er boðskapur jóla og minna þig á að þessar góðu kenndir kristinnar trúar og lífsafstöðu kvikna innra með þér og til þess höldum við jól, til að ítreka þennan stærsta veruleika lífsins.

Þér finnst það kannski undarlegt að kirkjan þín skuli tala svo á krepputíma, þegar haustar að í mörgu mennsku hjarta. Sorg, vonbrigði og andstreymi eru hluti lífsins. Lífið er ekki Matador-spil né nokkur annar léttvægur leikur né dægradvöl. Lífið er alvara, barátta góðs og ills á vettvangi mannlegs lífs. Í þeirri umgjörð gefur Guð þér frelsi til að vera ljóssins barns eða myrkursins barn. Þitt er valið. Sigurvegari lífsins ert ekki þú né ég né hetjur Matadors spilsins. Sigurvegari lífsins er Guð, sá er sigraði dauðann og reis upp til nýs lífs. Hann varð á jólum maður til að sýna okkur kærleika sinn og umhyggju. Hann gaf þér hlutdeild í sigri sínum til að þú værir í sigurliðinu, ekki til að stæra þig af heldur til að þú sæir ljós lífsins og Jesúbarnsins í augum þeirrar manneskju sem þú horfir á. Þú ert ljóssins barn Jesú vegna og það ljós átt þú að bera öðrum og eignast von og gleði trúarinnar. Þannig vitja jólin þín og mín, kalla okkur til að takast á við erfiðleika og vonbrigði í fullvissu þeirrar vonar að réttlætið muni sigra.

Hverju lýtur þessi veröld okkar, ljósinu eða myrkrinu? Svarið felst í þínum huga, þínu viðhorfi, þínu lífi. Jólin spyrja þig: Hvoru viltu lúta, barnið mitt, ljósinu sem skín frá Jesúbarninu í jötunni og söng englanna sem fylltu næturhúmið þegar orðið verð hold eða lífvana og þöglu myrkrinu sem ekkert mannlegt skilur né skynjar? Jólin spyrja um það. Þitt er að svara. Guð gefi þér nú og um eilífð gleðileg jól, þú ljóssins barns og lífsins barn.

 

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda.

Amen

 

Prédikun flutt í hátíðarmessu á jóladag í Fella- og Hólakirkju

 

 

 


Von jólanna

 

 En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.
Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.

Frelsari fæddurEn í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu."
Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi.

Amen.

 

 

                 Mig huldi dimm og döpur nótt

                 og dauðans broddur nísti,

                 en þú mig fannst, og þýtt og hljótt

                 af þínum degi lýsti.

                 Ó, sól míns lífs, ég lofa þig,

                 sem lífgar, frelsar, blessar mig

                 með guðdómsgeislum þínum.

 

Svo kveður sr. Sigurbjörn Einarsson biskup er lést á árinu í hárri elli, dáður og metinn fyrir einlæga trú sína, skáldgáfu og það allt fallega og góðlega sem prýddi þann einlæga vin og kirkjuhöfðingja. Kannski voru jólin enn stærri en venjulega þegar hann talaði og prédikaði og því fannst mér viðeigandi, kæru vinir, að óska ykkur öllum gleðilegra jóla nú í kvöld með orðum þess manns sem ætíð kom mér í best jólaskap um leið og ég minnist hans með þakklæti og virðingu.

Það er stundum eins og það verði örlítið spennufall í mannlífinu á þessu dásamlega kvöldi, aðfangadagskvöldi. Að baki er aðventan, undirbúningurinn, þessi annatími þegar við undirbúum jólin, stundum hávaðasamur og æstur. Og svo eru þeir líka til sem láta þennan fyrirgang ekki raska sér í neinu, heldur halda rósemi sinni og undirbúa jólin sín í ró og næði. Samt-samt er það svo að á þessu kvöldi er eins og allt verði hljótt á ný, það er eitthvað mikið í loftinu. Það eru að komin jól. Niður hinna annasömu daga þagnar og rósemin tekur völdin á ný. Og innan fárra daga verður lífið aftur komið í sinna vanalega farveg.

En það fór ekki fram hjá okkur að síðustu mánuðir hafa verið einstakir umbrotatímar í þjóðfélagi okkar. Fjármálakreppa, hrun bankanna, atvinnuleysi og umbylting nánast alls í okkar samfélagi hefur að vonum verið fyrirferðamikið umræðuefni og eðlilega deiluefni. Margir hafa tapað að ósekju, saklaust fólk sem trúði og treysti stofnunum samfélagsins fyrir eigum sínum situr nú margt hvað svikið og svipt eigum sínum, áformum sínum, vonum sínum og væntingum, vinnu sinni og fjárhagslegu og félagslegu öryggi. Er nema von að reiði grípi um sig og sér í lagi þegar því var haldið fram að þessi ósköp væru þjóðinni að kenna, hinum almenna launamanni sem ekkert hafði til saka unnið nema það eitt að njóta þess sem arður vinnunnar færði og beitti þar engum brögðum. En við horfum upp á að ákveðnir einstaklingar hafa ekki farið eftir viðurkenndum reglum. Kannski svíður okkur mest að enginn biðst afsökunar, enginn virðist iðrast, enginn virðist ætla að axla ábyrgð. Vís maður sagði á fundi er ég sat nýlega: Þessi kreppa er að ofan, undirstöður samfélagsins eru traustar. Svona greining á vandanum kann að vera rétt. Við sveltum ekki né búum við hörmungar en saklaust fólk er að tapa eigum sínum og þarf að eignast og sjá von um að úr rætist.

Svo koma jólin inn í þennan harða veruleika, jól sem tala um lítið barn og móður þess, engla og hirða. Er þetta ekki einhver þversögn í lífinu?

Trú, kristin trú hefur vakið von í vonlausu brjósti. Von trúarinnar hélt lífinu bókstaflega í þjóðfélagi okkar sem á sínum tíma bjó við algjöra örbirgð og skort. Trúin færir þér í kvöld gjöf vonarinnar og trúarinnar sem kallar fram það besta sem þú átt í huga þínum, víkur burt reiði og kvíða þó síðar verði. Þú átt von á gjöf, þú fagnar í kvöld yfir því að mega taka við gjöf sem er þér einhvers virði, voninni, fyrirheitinu um að líf í myrkri, ljósi í dimmu daga, dimmu hið ytra sem í innsta hugskoti. Jólin hafa ætíð kallað fram djörfung kristinnar vonar, gefið kraft til að bindast böndum samstöðu og kjarks til að gera lífið betra.

Í kvöld á helgu kvöldi aðfangadags kemur þú í kirkju til þess að heyra það og skilja og játa og þú átt von á gjöf, honum, barninu sem var nefndur Jesús. Þrátt fyrir allt umstangið og tilboðin sem hafa hljómað í eyrum þér undanfarnar vikur, þrátt fyrir þau tíðindi að erfiðleikar séu í þjóðfélagi okkar og harðir tímar séu framundan þá hefur það ekki og mun ekki þagga niður þann tón jólanna að "Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn". Það er gjöfin sem Guð gefur þér nú og ætíð: Hann, Jesús, það eru jólin þín að heyra það og þiggja í auðmýkt, þiggja það allt tímanlegt og eilíft sem Jesús boðar og gefur.

Í okkar brothættu veröld er þessi boðskapur einstakur og skiptir okkur máli. Við sem höfum fram að þessu búið við allsnægtir og ofgnótt í flestu á ytra borði, í fæðu og klæði, í híbýlum og hvers kyns tækjum og tólum er það nauðsynlegt að gefa gaum þessum boðskap jólanna um Jesús, sem fæddur er. Því lífið er svo langtum meira en þetta ytra borð, hin sýnilegi veruleiki. Kirkjan hefur í boðun sinni undanfarin ár varað við þessum eltingarleik eftir auðmagni og varað við afleiðingum taumlausrar neyslu. Þess í stað hefur hún bent á velferð sálarinnar, velferð hins innra lífs sem bærist í hjarta þér og gerir þig að manneskju. Inni í okkur sjálfum er mannlegt líf, þar bærast tilfinningar og skoðanir, viðhorf og væntingar sem ekkert á hinu ytra borði fær breytt. Þessu innra lífi okkar þurfum við að hlúa að og næra nú sem aldrei fyrr til að höndla gleðina aftur. Við þurfum að lifa í trúarlegri ræktarsemi og alúð við mennskuna og hið guðlega sjónarhorn lífs okkar. Hinn ytri veruleiki lífsins gerir okkur ekki frjáls, þvert á móti, getur bundið okkur í þrælsfjötra. Það er hið innra viðhorf, hinn andlegi styrkur sem getur skipt sköpum í lífinu þegar við stöndum andspænis staðreyndum lífsins, þægilegum sem óþægilegum. Og það er gjöf jólanna sem færir okkur sannindin um það, að þennan andlega styrk færir Jesús okkur, styrkur trúarinnar stenst þegar allt annað þrýtur.

Jólin eru gefin þér sem eins konar fyrirheit um þetta, þú átt það í vændum að verða Guðs barn, helgað honum sem á jólum kom í þennan heim sem barnið í jötunni, sá sami og síðar yfirgaf gröfina til að þú mættir lifa-að eilífu.

Um allt þetta snúast hin kristnu jól, um vonina sem er Jesús. Kristin jól eiga erindi við hjarta þitt, við hugarþel þitt og innsta kjarna vitundar þinnar. Þau boða þér það, að þú átt það sem er öllu öðru æðra og meira og stærra og mikilfenglegra sem er hinn nýfæddi Jesús, frelsari þinn og sá sem kominn til þess auðga líf þitt og gefa þér hlutdeild í dýrð himinsins. Þau boða ljós í myrkri, boða von þegar vonleysið herjar á móti, lifandi von sem er grundvölluð í fæðingu, lífi, dauða og upprisu hans sem á jólum er gefinn mér og þér. Það er Guð sem kemur til okkar í mynd þessa barns, það er hann sem er kominn til þess að láta ljósið renna upp rétt eins og við sjáum í náttúrunni hið ytra, þegar daginn fer að lengja og myrkrið að hopa.

Jólin eiga sér svo sterka skírskotun til lífs okkar að það er eins og fátt nái að kæfa þau. En um jólin þarf samt ekki að tala því þau tala sjálf með miklu áhrifameiri hætti. Mál þeirra er einstakt og eru þér mikill fögnuður ef þú aðeins gefur þér tóm til að hlusta og nema. Þau tala ekki með vísindalegum hætti um mátt Guðs og stórmerki. Þau tala um barn. Jólin tala um mannsbarn sem Guð hafði velþóknun á. Þau tala um foreldra og fátækt fólk sem átti fá skjól og lítið af þessa heims auðævum. Er hægt að hugsa sér nokkuð jarðbundnara? Og jólin tala um það að þú ert til og Guð er til, að Guð vill elska þig og mig, eiga okkur, bjarga okkur og blessa okkur. Þetta segja jólin okkur. Alla vill Guð elska og eiga. Því þér er frelsari fæddur, ungbarn í jötu. Þetta er mál jólanna og talar sjálft og hittir okkur í hjartastað. Ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast skal öllum, yður er í dag frelsari fæddur sem er Drottinn Kristur, sagði engillinn forðum. Það er ítrekað á þessu kvöldi.

Guð gefi okkur að eignast þennan fögnuð jólanna, ljósið eilífa sem boðar frið og frelsi, hátíð sem hrekur burt allt það sem kennt er við myrkrið. Guð gefi þér í kvöld og alltaf gleðileg jól í Jesú nafni.

Amen.

 

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda.

Amen

Prédikun flutt í Fella- og Hólakirkju 24, desember kl. 23:30


10 meyjar

Mattheusarguðspjall 25:1-13

Enn sagði Jesús: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.
Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað.
Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.
Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.

 

Fella ´       

         NNáð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi.

Amen

 

Það blæs ekki sérstaklega byrlega í samfélagi okkar þessar vikurnar. Hrun bankakerfisins, erfiðleikar í gjaldeyrismálum, fjárskortur til að reka atvinnulíf landsmanna er tilfinnanlegur og áfram mætti telja þau áföll sem við lesum og heyrum um daglega í fjölmiðlum. Þessu fylgir enn alvarlegri atburðir þegar atvinnulíf þjóðarinnar er í uppnámi. Fjöldi fyrirtækja er við það að hætta starfsemi, atvinnuleysi eykst, greiðsluerfiðleikar fólks fara vaxandi. Fjölmargir, innanlands sem erlendis, hafa tapað stórfé á innlánsreikningum sínum, saklaust fólk sem í trúnaði og trausti lét sparifé sitt til ávöxtunar. Og það eru eðlilega margir þessa dagana sem eru kvíðnir, áhyggjufullir, ráðþrota og reiðir. Og við skulum ekki vanmeta reiði fólks. Hún getur snúist upp í alvarleg átök og hatrammar deilur sem kannski aldrei grær um heilt aftur. Það er auðvitað alvarlegt mál þegar saklaust fólk tapar eigum sínum beint eða óbeint. Þegar lán bólgna út og sífellt verður erfiðara að standa í skilum er það auðvitað ekkert annað en tap og orsakar réttláta reiði.

Og við megum ekki vanmeta þennan veruleika. Það er ábyrgðarhlutur stjórnvalda að upplýsa ekki hvar sök liggur, það er ábyrgðarhluti þeirra sem brugðust að upplýsa ekki hvað er framundan, það er líka ekki sístur ábyrgðarhlutur að biðjast ekki afsökunar, gangast við mistökum og iðrast. Það er býsna einfeldningslegt í rauninni og kannski allt að því skammarlegt og ámælisvert þegar ráðamenn og peningafurstar saka almenning í landinu um að hafa eytt um efni fram. Ég þekki margt fólk og hef talað við marga. Ég kannast ekki við það fremur en mörg ef ekki flest ykkar að fólk almennt hafi verið að sólunda fé í stórum stíl í lúxus. Það er ekki fólkið sem flogið hefur yfir húsþakinu hjá mér í þyrlum sínum og þotum undanfarin ár til að veðsetja eignir almennings í vafasömum viðskiptum í útlöndum. Og nú stendur það fólk og horfir framan í almenning og gefur í skyn að bruðl daglaunafólks sé búið að koma okkur í klandur. Þjóðin hefur eytt um efni fram, er sagt til að allir verði sakbitnir. Er það svo?

Biblían er raunsönn bók. Hún er ekki gamaldags hindurvitni um óræðan himinbláma og dýrð í ósnertanlegri eilífð. Hún er bók um veruleika lífsins, líf gærdagsins, líf nútímans, líf framtíðarinnar. Í dag talar hún um fyrirhyggjuna m.a. Og um fyrirhyggjuleysið, muninn á þessu tvennu, afleiðingar þessa. Og um hvað snýst þjóðmálaumræðan þessa dagana, gott fólk og kæru vinir? Um fyrirhyggjuleysið, um óðagotið, um stundargleðina og vímuna, um það að fá sem mest á skömmum tíma og hugsa ekki um afleiðingar þess að skoða alla hliðar hvers máls. Um græðgi og óheilindi Flókið? Ekki svo mjög.

Þær voru tíu meyjarnar í guðspjalli dagsins. Fimm voru hyggnar og sáu að þegar brúðguminn kæmi þyrfti að hafa nægilegt ljósmeti til að lýsa honum leið. Fimm voru fávísar og ornuðu sér við það sem þær höfðu handbært og treystu á lán síðar. Það brást og þær misstu af partíinu, veislunni.

Ekki þekki ég fjölda þeirra né hverjir það eru sem mesta ábyrgð bera á ástandi þjóðmála hér. Það er heldur ekki mitt að gramsa í því né dæma aðra. En hitt má öllum vera ljóst að það er ekki mikil fyrirhyggja að hvetja þjóð til að lifa á lánsfé úr útlöndum. Það flöktandi skar sem af slíku lýsir mun ekki endast lengi og enginn verður aukaskammturinn til að lýsa þegar brúðguminn, skuldadagurinn, kemur. Þeim verður veislan lokuð eins og komið hefur á daginn. Við erum nefnilega í sporum fávísu meyjanna 5, við getum ekki kennt öðrum um, fyrirhyggjuleysi þeirra sem áttu að stoppa þetta bruðl af í tíma kemur okkur öllum í koll og mun marka samfélag okkar um ókomin tíma. Við fáum ekki lánað frá hyggnu meyjunum því við sýndum enga fyrirhyggju, ábyrgð, trúmennsku. Þær höfðu varað okkur við en við skelltum skollaeyrum.

Dæmisagan um meyjarnar tíu er eins og hún hafi verið samin í gær. Hún hittir nútímann í þessu landi og reyndar víðar eins og listaverk, sem hún og er. Jesús er þó að tala um aðra hluti en fjármálaástand og horfur í þjóðarbúskapnum. Hann er að tala um tilveruna alla, um nauðsyn þess að gefa lífinu, lífsgildunum, verðmætamatinu, trúnni gaum. Lifa lífi sínu í trú og trúmennsku, í vitund þess að Guð er þér nær en geisli á kinn, að við séum ekki alltaf að hugsa um líðandi stund heldur um lífið sem eina órjúfanlega heild, vegferð í dagsins önn, fyrirhyggju í hugsun og veruleika. Jesús er að minna á það að sú stund kemur að við stöndum frammi fyrir Guði, titrandi með tóma hönd, og hann spyr: Hvaða lífsins ljósmeti lýsir þér, barnið mitt. Ertu fávís eða hyggin manneskja, kanntu fótum þínum forráð, gefur þú gaum að skrefum þínum þessa lífs, áttu fyrirhyggju sem gerir ráð fyrir að lífið lifir og þú ert lífsins barn sem átt það eitt sem í hendi þér er? Mundu þá að hendurnar eru tvær, í annarri skaltu geyma það sem þarf til að þú lifir þá stund að brúðguminn, hinn upprisni Drottinn Jesús Kristur, verður þér lifandi veruleiki í lífi og dauða. Það er sú fyrirhyggja sem hann vill að þú temjir þér.

Með þetta nesti vill kirkjan þín minna þig á hver þú ert og hvers þú ert. Við snúum ekki stundaglasi tímans við, það tæmist eftir sínum lögmálum. Við verðum að láta ljósið lifa, við verðum að taka því sem lífið færir okkur, góðu og slæmu. En við eigum rétt á að hafa skoðun og tilfinningar, tala röddu réttlætis og sanngirni, að trúmennska og ábyrgð séu virt og við fáum að vita þegar hinar fávísu meyjar horfa á slokknað ljósið og ljósmetið er þrotið.

Margir eru þeir sem hafa í lífi sínu gefið sér tíma og fyrirhöfn til að þessi veruleiki sem Biblían tjáir og túlkar berist sem víðast til uppbyggingar manneskjunni. Eitt slíkra félaga er Gídeonfélagið. Við skulum nú fá fulltrúa þess hér á landi til að kynna félag sitt og í lok guðsþjónustunnar mun vera frammi karfa fyrir frjáls samskot til styrktar félaginu. Það er enginn þvingaður til framlags en minnumst þess að sérhvert framlag er mikils virði. Guð blessi starf Gídeonfélagsins.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda.

Amen

(Flutt í Fella- og Hólakirkju 16. nóv. 2008)


Aðstoðarmenn þingmanna???

Umdeilt hefur verið hvort þingmenn eigi að hafa aðstoðarmenn. Það er greinilegt að þeim er ætlað mikilvægt og uppbyggilegt þjóðþrifastarf í alvarlegu þjóðfélagsástandi. Bjarni hefur nú sýnt okkur það. Getur þessi aðstoðarmaður hans ekki fundið sér einhverja göfugri vinnu eða yfirmaður hans öllu frekar.
mbl.is Bjarni íhugi stöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Legg þú á djúpið

Guðspjallið Lúk. 5. 1 - 11

Nú bar svo til, að hann stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð.Þá sá hann tvo báta við vatnið, en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. Hann fór út í þann bátinn, er Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum.

Þegar hann hafði lokið ræðu sinni, sagði hann við Símon: Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar.

Símon svaraði: Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin.Nú gjörðu þeir svo, og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska, en net þeirra tóku að rifna.Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana, svo að nær voru sokknir.

Þegar Símon Pétur sá þetta, féll hann fyrir kné Jesú og sagði: Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður. En felmtur kom á hann og alla þá, sem með honum voru, vegna fiskaflans, er þeir höfðu fengið. Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.

Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.

__________________________

 

Hugleiðing í kvöldmessu 5.sd.e.þrenningarhátíð flutt í Fella- og Hólakirkju 22.06.08

                       

Eilífi Guð, þú sem kallar í þína þjónustu karla og konur og framkvæmir með þeim verk þitt á jörðu. Við biðjum þig: Opna þú eyru okkar og hjörtu, að við heyrum þegar þú kallar og fylgjum honum sem þú sendir, Jesú Kristi, sem er bróðir okkar og Drottinn,
og lifir og ríkir með þér og heilögum Anda frá eilífð til eilífðar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi

Amen

Það er stundum stutt bilið milli þeirra systra, sorgarinnar og gleðinnar, eða eigum við kannski ekki að taka svo djúpt í árinni og segja að skammt sé milli vonbrigða og innilegrar gleðitilfinningar. Ég nefnilega þekki tilfinningu Péturs er hann koma að landi eftir fiskidráttinn forðum á vatninu og lesið var úr í guðspjalli dagsins. Ég var í nokkur ár trillukarl í hjáverkum austur á Norðfirði. Ég man vongóðan hug á útstíminu, vonina um happadráttinn, koma síðar um daginn með dekkfulla trilluna af fiski og finna þessa sérkennilegu sælutilfinningu að landa miklum afla. Oftast stóð ég þó í sporum Péturs, lítið fór fyrir uppgripunum og nokkrum tittum var kastað upp á bryggju og ég tók undir með grátkórnum sem réru um svipað leyti eystra. Afli varla fyrir olíu og öðrum kostnaði - tóm vonbrigði. En alltaf var þó haldið í vonina - vonina um að lifa tilfinningu Péturs eftir að Jesús hafði sagt honum að fara aftur og leggja netin til fiskjar og allt yfirfylltist. Hvílík gleði, hvílík sælutifinning að lifa slíka stund.

En Jesús var ekki í aflahugleiðingum að þessu leyti. Hann sagði Pétri og þeim hinum að héðan í frá skyldu þeir menn veiða, fara út í lífið og hversdaginn og vinna menn til fylgis við boðskap Jesú um bjargræði hugans og sálarinnar, um að lífið tæki stakkaskiptum.

Við höfum öll kynnst þessari tilfinningu sælunnar, gleðinnar hinnar sérkennilegu uppljómunar hugans, þess sama og Pétur lifði eftir að hafa fyllt bátinn. Atburðirnir þurfa ekki alltaf að vera stórir né skipta sköpum. Ég fæ t.d. alltaf sérkennilaga vonleysistilfinningu þegar ég fæ bréf frá skattinum. Hvað hef ég nú gert af mér? Hvað á nú að fara að rukka mig meira? Fyrir nokkrum vikum fékk ég bréf frá skattinum og titrandi af ímyndaðri skelfingu opnaði ég bréfið og sjá: Þar var að finna ávísun fyrir ofgreidda skatta, ekki há upphæð en hvílík sæla og mér hefur verið heldur hlýrra til skattstjóra síðan. Bara smáatvik úr hversdeginum. Þú þekkir líka gleðina þegar þú gerir góð kaup, ferð að kaupa þér langþráðan hlut eða tæki og þegar þú kemur í búðina er hún á tilboði og þú græðir heilmikið svona óvænt. Jú, við þekkjum öll þessa þægindatilfinningu þegar eitthvað óvænt happ leggst okkur til.

Jesús hefur sérstakt lag á að veita gleðistraumum inn í daglegt líf okkar, stundum held ég að við gerum okkur tæpast grein fyrir því. Liðin vika. Hvaða gleði færði hún mér og þér? Hvaða viðburðir þessa dags eigum við honum að þakka? Eða erum við kannski svo blind að við sjáum hann ekki í atvikum lífsins? Ég hitti óvenju glaðlegan og skemmtilegan hóp í vikunni, fólk sem ég naut að spjalla við. Af hverju hitti ég þau? Mér finnst að Jesús hafi leitt fund okkar saman því mér leiðist að telja allt tilviljanir. Í hinu smá og hversdagslega er Jesús með höndina sína og hug að hnýta saman það góða og gæfuríka, skerpa á hinum góðu lífsgildum til að lífið verði ögn vingjarnlegra og betra. Við erum mannaveiðarar í þeim skilningi að við erum að láta gott af okkur leiða og laða fólk til samfélags við Jesú.

Pétur hefur sjálfsagt ekki haft háar hugmyndir um dýrð dagsins sem hann réri til fiskjar forðum - einn venjulegur vinnudagur rétt eins og aðrir. Tæplega hefur hann búist við að náð Guðs og andleg viðfangsefni yrðu ofarlega á baugi. En einmitt í miðju hinna hversdagslegu hluta birtist Jesú honum og umvafði hann dýrð og náð Guðs. Í erli hins hverdagslegasta dags allra daga snart Jesús kviku lífs hans og breytti því varanlega. Hann varð aldrei samur maður.

Hvað ber næsta vika í skauti sér fyrir mig og þig? Það vitum við ekki nema það eitt að Guð mun ganga með okkur hvern bjartan dag þessarar viku. Okkar er að skynja hann og sjá í góðum atburðum og persónum. Verum með opin hug við vinnufélagana, börnin okkar, barnabörnin, makann okkar og vini. Samverur og samtöl, félagsskapur við það fólk kann að færa okkur óvænta gleði og gæfu sem við eigum að endurgjalda og þakka, þakka Guði að gefa okkur lífið og samferðafólk. Svo hversdagslega hluti eigum við að meta og þakka í auðmýkt og trú en ekki ana áfram í blindri trú á að allt sé sjálfsagt, allt sé okkur mögulegt, allt sé okkur sjálfsagt.

Vinnuvika fer í hönd kæru vinir. Við höfum komið hingað í kvöld til að láta uppbyggjast í trú til að ganga svo út í samfélagið til að vera mannaveiðarar. Við leggjum út á djúpið til að ganga erinda Jesú Krists og kirkju hans. Það er okkar heilaga köllun, það eru forréttindi, blessun, hlutskipti sem gerir lífið okkar betra, gerir okkur að betri manneskjum. Við leggjum á djúpið með gildin hans og veruleika hans, þjáningu hans og gleði en umfarm allt með sigur hans á því illa, í krafti upprisu hans, með sigur hans á dauðans dimmu myndum hvernig sem þær birtast. Við leggjum á djúpið í fylgd hans með það allt sem hann setur í malinn okkar en skiljum eftir á ströndinni okkar eigin ófullkomleika, bresti, veikleika og vonbrigði.

Heyrum við boðið hans? Nemur þú rödd hans er hann hvetur þig að ganga erinda sinna á djúpinu, í lífinu þínu? Þér finnst það kannski ágengt og umturna áformum þínum. En vita máttu að kall hans mun helga og blessa áform þín, gera þau ríkari að tilgangi svo þú verðir þroskaðri og betri manneskja. Í fylgd Jesú verða allir hlutir, viðmið og afstaða ný og bjartari. Slíku fylgir sérkennileg gleði - og sælutifinning að láta gott af sér leiða. Við skulum leggja á djúpið með Jesú og ganga inn í okkar daglega líf með hans viðmið að leiðarljósi og færa blessun og gleði til þeirra sem með okkur lifa. Við skulum leggja á djúpið í líkri vitund og  Matthías Jochumsson orti í sínum fræga sálmi:

                           Legg þú á djúpið eftir Drottins orði
                           og æðrast ei, því nægja mun þinn forði,
                           þótt ómaksför þú farir marga stund.
                           Ef trú og dáð og dugur ei þig svíkur,
                           er Drottinn lífs þíns ennþá nógu ríkur
                           og mild hans mund.


Er Lasarus á leið í bæinn?

 Prédikun 1. sunnudag eftir þrenningarhátíð

Guðspjall: Lúkas 16:19-31

Jesús sagði þeim þessa dæmisögu: „Einu sinni var maður nokkur ríkur er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. Feginn vildi hann seðja sig á því er féll af borði ríka mannsins og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. En nú gerðist það að fátæki maðurinn dó og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn.
Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. Þá kallaði hann: Faðir Abraham, miskunna þú mér og send Lasarus að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína því að ég kvelst í þessum loga.
Abraham sagði: Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði meðan þú lifðir og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður en þú kvelst. Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar svo að þeir er héðan vildu fara yfir til yðar geti það ekki og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor. En hann sagði: Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað. En Abraham segir: Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim. Hinn svaraði: Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu mundu þeir taka sinnaskiptum. En Abraham sagði við hann: Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum láta þeir ekki heldur sannfærast þótt einhver rísi upp frá dauðum."

_______________________________________________

Biðjum: Mikli Guð, sem himnarnir rúma ekki, en kemur þó til okkar og ert okkur nálægur í orði þínu, við biðjum þig. Allt í kringum okkur eru orð. Hjálpa þú okkur að heyra þína rödd meðal allra þeirra sem tala til okkar og vilja hafa áhrif á okkur, svo að líf okkar megi tilheyra þér og að það sé borið uppi og mótað af kærleika þínum sem við mætum í Jesú Kristi. Þér sé lof og dýrð að eilífu.
Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Amen.

Það er stundum sagt að ákveðnir atburðir eða augnablik lífsins séu svo áhrifamikil að maður verður ekki söm manneskja á eftir. Ég man atvik, já staðinn og stundina. Það var árið 1978 þann 3. febrúar um kl. 8 að morgni. Hún lyfti sér mjúklega af flugbrautinni í Karachi í Pakistan í hitamollu morgunsins þotuferlíkið með mig og liðlega 300 aðra farþega innanborðs. Nokkra daga dvöl í þessari annasömu og menguðu stórborg var lokið og ég sat einn með sjálfum mér, hugsi. Atburðir undanfarinna daga sóttu á hugann. Vingjarnleg andlit, fólks- og bílamergð, reykjarstybban af götunum, mannhafið ógurlega. Fátækrahverfin stóru með öllum börnunum sem brostu til mín, örbirgðin í brostnum augum betlaranna sem horfðu á mig í þögulli bón um ölmusu. Þetta voru ágengar myndir og þegar ég leit út um gluggann á þotunni sá ég ofan á þök húsanna, ef hús skyldi kalla, í þessum óendanlegu fátækrahverfum. Og svo hvarf þetta sjónum þegar þotan klifraði upp fyrir skýin en myndirnar lifðu, ágengar myndir, friðlausar myndir. Hví á veröldin svona hræðilegar myndir, hvers vegna þarf fólk að líða svona, af hverju þessi niðurlæging örbirgðar og vonleysis? Framundan var 6 tíma flug til Bankok og þaðan annað eins til Ástralíu. Í sætisvasanum fyrir framan mig var tímarit sem ég teygði mig í til að stytta mér tímann. Þar var andstaðan, glansveröldin, neysluheimurinn, tækjaúrvalið, allt sem þú þarft til að öðlast lífshamingjuna, stóð þar. Allar manneskjur í myndablaðinu, fínar og fágaðar, vel snyrtar og með bros á vör. Þar var ekki örbirgðinni fyrir að fara.

Heimur andstæðna, hugsaði ég, tveggja heima veröld, bræður og systur en þó ólík um nær allt. Andstæður heimsins hafa síst minnkað eftir þessi liðlega 30 ára minningarbrot sem ekki gleymast. Kreppa í veröld nútímans er að hluta vegna þess að við gleymdum þessum myndum. Stóru þöglu risarnir sem Vesturlönd mergsugu hafa vaknað og þurfa sinn skerf af lífsþægindunum. Indland og Kína, sem dæmi, eru orðin vaxandi iðnaðarsamfélög og þurfa sín hráefni og orku, sinn munað, okkar lífsstíl. Og þá verður sprengjan sem margir vöruðu við ef við kynnum okkur ekki hóf, en er sennilega að verða að veruleika. Lífsgæði hins auðuga heims eru tímanleg en ekki varanleg.

En komstu í morgun til að heyra mig segja þetta? Komstu ekki í kirkju til að heyra Guðs orð? Jú, þú komst til þess og til að heyra og finna hvað Guð segir við þig í bókinni sinni. Jesús er að tala í guðspjalli þessa dags við þig persónulega-ekki bara hina. Hann er að þessu sinni að tala um ágirndina, þegar við söfnum og heimtum en gleymum skyldum okkar, hinum andlegu verðmætum. Ekki að það sé eitthvað syndsamlegt að eiga, heldur hvernig þú ferð með eigur þínar, líf þitt, þitt veraldarpund.

Og Jesús þarf hvorki að fljúga til Pakistan, horfa yfir iðnaðarbyltingu í Kína eða annars staðar, sviðna jörð í Írak til að merkja misréttið og ágirndina. Hann sagði áheyrendum sínum dæmisögu, sögu sem hefur persónur og sviðsmynd sem við þekkjum því við erum þar stödd. Tímalaus, staðarlaus dæmisaga um ágirndina, sinnuleysið, skeytingarleysið um þá sem minna hafa.

Lasarus er á lífi, gott fólk. Ég tek þessi orð Jesú til mín. Ég hef séð Lasarus og er ekki samur maður enn og verð aldrei eftir að ég leit í augu hans. Er þetta veröldin sem ég fól þér, blessað lífsins barn og birtunnar barn að þú gleymir hvers barn þú ert, hvers eðlis sá himneski faðir er sem gaf þér þetta allt? Þannig spyr Guð mig í dag og bíður svars.

Við lifum í neyslusamfélagi, veröld ríka mannsins Við lifum umfram efni, erum með einna mestu skuldir á hvern mann sem þekkist. Slíkt samfélag á það alltaf á hættu að verða sjálfhverft, huga að sínu en gleyma þeim Lasarusum sem eru við veginn. Ríki maðurinn í dæmisögu Jesú var ekki slæmur vegna þess að hann var auðugur. Synd hans fólst í sinnuleysinu, hugsunarleysinu, vanrækslunni, gleymskunni, tillitsleysinu, að hann gaf neyð Lasarusar engan gaum.  Jesús fordæmir hugsunarhátt, vanrækslu, afstöðu, sinnuleysi, hinn kalda kærleika, en ekki annað.

Dæmisaga dagsins er okkur áminning, ábending um hvort við þurfum ekki að hugsa ýmsa hluti upp á nýtt. Hver gefur barni sínu steina þegar það biður um brauð, spyr postulinn á einum stað. Eigum við ekki þá lífshugsjón og lífsmynd, að hlúa ferkar að andlegri líðan okkar og barna okkar en ala á heimtufrekju og eyðslu? Við eigum sterkar fyrirmyndir fyrir slíku. Við minnumst í dag m.a. þess mæta manns sr. Friðriks Friðikssonar sem gaf æsku þessa lands gott ferðanesti. Horfum til alls þessa góða og dugmikla fólks sem minnir okkur á sígild lífssannindi og vekur okkur til umhugsunar og ábyrgðar á lífinu, spámanna nútímans, þeirra sem minna okkur á að Lasarus lifir. Trúin hlúir að sálinni, nærir sálina, gefur okkur heilbrigða sýn á lífið, samhengi þess og stefnu, bregður ljósi á sársauka þess en opinberar gleði þess líka. Og í framhaldi af því vill gefa okkur nýja og réttari sýn á tilveruna, opna augun fyrir því að Lasarus er bróðir okkar og systir en ekki fjarrænn vesalingur.

Eigum við ekki að beina sjálfum okkur og börnum okkar inn á þessar uppbyggilegu brautir, hlúa að sálinni, trúnni, hinum uppbyggilegu þáttum lífsins? Ekki er það útgjaldamikið verk en krefst umhugsunar, umræðu og að þora að standa á skoðunum sínum, kostar tíma til að rækja kirkju sína og trú. Við kaupum okkur ekki undan öllu, ekki því að glíma við lífið. Sá er ekki ríkur sem ekki skilur samhengi lífsins, hann kann að eiga peninga en er ekki ríkur í anda.

Jesús á erindi við okkur í dag. Munum að við erum manneskjur og eigum að gefa öðrum manneskjum gaum, sérstaklega þeim sem þurfa hjálpar við. Látum það ekki spyrjast að í samfélagi okkar sé fólk að safna undirskriftum til að mótmæla komu flóttafólks, mæðra, ekkna, sem ekkert eiga og sjá enga framtíð fyrir börnin sín litlu sem Guð gaf þeim, fólks sem hefur lifað ólýsanlegar hörmungar og niðurlægingu en sér von hjá okkur. Þeirra von er hjartahlýja okkar, trúarþel og skynsemi. Ætlum við að bregðast þeim, bregðast Guði, bregðast lífssýn okkar og trú svo góðborgarar geti lifað án grettu yfir því að Lasarus er á leið í bæinn? Þær konur sem áætlað er að komi til Akraness munu eflaust telja þann dag er þær snerta íslenska mold það augnablik lífsins sem gerir þær ekki samar manneskjur og þá í góðri merkingu. Verum stolt yfir því að vera hluti vona þeirra.

Kæru vinir. Við göngum út í fegurð þessa morguns og birtu björtustu daga ársins með þetta nesti hans fyrir augum. Ríkidæmi okkar felst í auðgun andans en ekki í verðmæti dauðra hluta. Göngum saman veginn hans, veg sannleikans og trúarinnar svo við náum því sem hann vill: Að vera rík - - - rík í andanum hjá Guði. Það er eftirminnileg ögurstund í lífi hvers manns, stund þar sem engin manneskja verður söm eftir.

(Prédikun flutt í guðsþjónustu í Fella- og Hólakirkju 25. maí 2008)

 


Pistill um hvítasunnuna

Hvítasunnan - fjölþjóðahátíð kirkjunnar?

 

Tækifæri á hvítasunnu

Tungumál aðgreina

Öll höfum við einhvern tíma lifað þær aðstæður að heyra framandi tungutal og skilja lítið sem ekkert. Það er ekki þægilegt og gerir mann óöruggan að heyra talað, hlegið, grátið eða æpt og við skiljum ekki neitt og getum ekki náð sambandi við annað fólk.

Hér á landi býr fjöldi innflytjenda sem sumir hverjir lifa við þessar aðstæður, að skilja ekki hvað er talað í kringum þá, hvað er að gerast í nýja landinu og nánasta umhverfi. Ætli þeir séu ekki bara eins og annað fólk í líkum aðstæðum, óöruggt, kvíðið og hættir til að einangrast í eigin veröld, heimi sem þau ein skilja?

Atburðir hvítasunnu

Lærisveinarnir, í frásögn Postulasögunnar um atburði hvítasunnunar, töluðu framandi tungum og fólkið hélt þeir væru drukknir eða gengnir af göflunum. Fólkið skildi ekki mál þeirra, þeir voru sem framandi fólk í eigin landi og samtíð. Tungutalið eða tungumálið setti gjá milli þeirra og áheyrandanna og þá er stutt í dómhörkuna og alhæfingarnar þegar við skiljum ekki þessa fáu. Það er gömul saga og ný að manneskjan er fljót að dæma það sem hún ekki þekkir og fordæma það sem hún ekki skilur. Hversu mörg ætli þau séu slysin og ódæðin sem framin hafa verið vegna þess að manneskjan ætlar náunga sínum illar hvatir þegar hún skilur ekki? Tungumál aðgreina manneskjur sem eiga þó svo margt sameiginlegt.

Tungumál kristninnar

Kristin kirkja á í raun sitt eigið tungumál. Atferli í helgihaldi, liðir guðsþjónustunnar og helgisiðir kristins samfélags eiga sér mismunandi orð en skiljast þó þeim sem hafa innsýn í veröld kristinnar trúar og hafa lifað lífi kristinnar kirkju. Ég hef sjálfur verið í ýmsum guðsþjónustum í framandi löndum þar sem ég skildi ekki hið talaða orð. En ég vissi nákvæmlega hvað var að gerast af því ég er læs á tungutal kirkjunnar minnar. Ég fann til öryggis í tungutali trúarinnar og vissi að ég var í vinahópi.

Þetta eru að vissu marki forréttindi sem trúin nýtur og við eigum að hagnýta okkur þennan veruleika til að brjóta niður óþarfa múra milli fólks. Kirkjan á að nýta sér þennan sérleik sinn og leggja ríkari áherslu á að gera táknmál trúarinnar aðgengilegt almenningi. Sérhvert tækifæri sem gefst, í kirkjuheimsóknum, í kynnisferðum í kirkju, kirkjuhátíðum og hvenær sem færi gefst á hún að fræða um táknmál trúarinnar svo við séum yfirleitt læs á trú og menningu. Það er andlega fátæk manneskja sem ekki skilur tungutak trúarinnar og skilur ekki atferli helgihaldsins í tali og tónum

Ný tækifæri

"Hvítasunnan er fyrsta ferðahelgi sumarsins", sagði glaðlegi þáttastjórnandinn í útvarpinu áðan. Hann meinti vel en er hvítasunnan ekki örlítið meira? Getum við ekki notað hvítasunnuna til að laða til okkar þá innflytjendur sem búa í nágrenni okkar inn í kirkjuna, gefið þeim hlutverk, hlustað á hugmyndir þeirra, boðið til samveru og beðið þá að lesa texta dagsins á sínu tungumáli og glaðst með þeim? Er ekki skynsamlegt fyrir okkur að hvítasunnan verði fjölþjóðahátíð kirkjunnar þar sem hver fær leyfi til að tala sína tungu og vera með? Við skulum fagna þeim sem tala framandi tungum og hlusta og skilja. Það gerir þau örugg og ákveðin og þau fara að treysta okkur. Er það ekki einnar messu virði?

Gleðilega hátíð.

(Skrifað fyrir www.tru.is í maí 2008)


Leiðsögn andans

4. sunnudagur eftir páska

Guðspjallstexti: Jóhannes 16:5-15

En nú fer ég til hans sem sendi mig og enginn yðar spyr mig: Hvert fer þú? En hryggð hefur fyllt hjarta yðar af því að ég sagði yður þetta. En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs að ég fari burt því ef ég fer ekki kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer sendi ég hann til yðar. Þegar hann kemur mun hann sanna heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur. Syndin er að þeir trúðu ekki á mig, réttlætið að ég fer til föðurins og þér sjáið mig ekki lengur og dómurinn að höfðingi þessa heims er dæmdur.
Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú. En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann. Það sem hann segir yður hefur hann ekki frá sjálfum sér heldur mun hann segja yður það sem hann heyrir og kunngjöra yður það sem koma á. Hann mun gera mig dýrlegan því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á er mitt. Því sagði ég að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.

_______________________________

Biðjum: Skapari himins og jarðar, öll verk þín lofa þig. Kenndu okkur að standa ekki þögul hjá þegar öll sköpunin syngur þér lof,
heldur gef af mildi þinni að líf okkar allt sé lofsöngur um miskunn þína og máttarverk þín. Kenndu okkur aftur nýtt lag við ljóðið um vonina sem í okkur býr.

Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi.

Amen

Ég ók fremur greitt eftir malbikuðum þjóðveginum enda aðstæður allar ákjósanlegar. Tvær til þrjár akreinar í hvora átt, veðrið yndislegt, við hjónin á nýrri glæsikerru sem vinafólk okkar hafði lánað okkur ásamt húsi þeirra og dótturdóttirin í aftursætinu að úða í sig sætindum og lesa bók. Þvílíkt sumarfrí. Hvílík sæla. Við ókum meðfram norðurströnd Frakklands á liðnu sumri að skoða söguslóðir, áttum gott og áhyggjulaust sumarfrí og nutum þess að aka um burt frá heimilinu en áætluðum að koma til baka seint um kvöldið í myrkrinu.

Við höfðum reyndar aldrei verið þarna fyrr og þekktum ekki aðstæður. Við ókum rakleiðis á fyrirfram ákveðna staði, nutum þess að ganga um og spjalla. Þegar rökkva tók lögðum við af stað heim, eftir hraðbrautinni góðu. Við nálguðumst borgina, ókum ótal krókaleiðir og hringtorg. Og svo: Vá. Við lögðum beint í innkeyrsluna á húsinu sem við höfðum til umráða. Komin heim, engin kort, aldrei villst. Hver var leyndardómurinn á bakvið þessa snilligáfu mína að rata þessi ósköp án þess að spyrja nokkurn né leita í kortum? Jú, í neðra horni framrúðunnar var lítið tæki, svona eins og sígarettupakki. Með því að stimpla inn hvert ferðinni væri heitið sá þetta tæki um að sýna mér leiðina á skjá. Já, meira segja kom öðru hvoru tölvuhljómandi rödd sem sagði mér: „Beygðu næst til vinstri eftir 50 metra", eða „beygðu næst til hægri, taktu útleið númer tvö á næsta hringtorgi". Svo hugulsamt var þetta tæki að röddin sagði eitt sinn. „Passaðu þig, löggan er við hraðamælingar eftir 500 metra". En af því ég er nú svolítill stríðnispúki í mér þá tók ég einu sinni beygju á móti ráði tækisraddarinnar. Hún sá við því. Sama tölvuröddin sagði þá: „Tókst vitlausa leið. Ég laga þetta. Taktu næst beygju til vinstri eftir 30 meta". Og svo var ég leiddur af mínum sjálfvalda ranga vegi. Og þegar ég horfði stoltum augum á bílskúrshurðina í innkeyrslunni á húsinu við heimkomuna í myrkrinu um kvöldið sagði röddin. „Þú ert komin heim". „Veit það," sagði ég og slökkti á tækinu.

Þið þekkið sjálfsagt svona apparat. Mér skilst að nú sé enginn maður með mönnum nema eiga svona tæki því þá villist maður aldrei. Meira segja las ég í blöðunum fyrir síðustu jól að þetta yrði aðal jólagjöfin það árið. Það er ekki amalegt, að villast aldrei, að rata alltaf rétta leið og ná áfangastað heilu og höldnu. Ja, hérna, hugsaði ég. Það verður ekki erfitt að lifa í framtíðinni svona án þess að villast og ég verð að viðurkenna að svona tæki er bara nokkuð sniðugt þegar maður er að ferðast á ókunnum slóðum.

En, hugsaði ég, vantar okkur ekki svona tæki sem veitir okkur upplýsingar um rétta stefnu í lífinu. Hvenær eigum við að breyta um leið, víkja af vegi syndar og lasta og rata hina vandfundnu leið dyggðanna sem gerir tilveru okkar ögn betri og innihaldsríkari? Væri ekki gott að hafa tæki við samviskuna sem hvíslaði að okkur: „Láttu nú þetta eiga sig. Hugsaðu ekki svona". Eða. „Þarna er manneskja sem þyrfti að aðstoða, tala við, sinna, láta vel að, sýna umhyggju". Yrði lífið bara ekki fullkomið með svona tæki sem væri hægt að tengja við samviskuna? Engin önugheit, engin ógæfa. Alltaf á réttri leið.

Lærisveinarnir, sem við heyrðum um í guðspjalli dagsins, voru ráðvilltir, stefnulausir, vissu tæpast hvað leið þeir ættu að fara í lífinu. Jesús, vinur þeirra og leiðtogi var farinn. Og þó. Hann hafði birst þeim eftir upprisuna, talað við þá, snætt með þeim, hughreyst þá, blásið þeim nýja von í brjóst. En samt, eitthvað var breytt - öðruvísi. Þessir daga frá páskum til hvítasunnu eru kallaðir gleðidagar í kirkjunni. Gleði yfir sigrinum í upprisu Jesú. Guð hafði lagt dauðans afl að velli og birt okkur að hann er dauðanum sterkari. Já, gleði yfir því að við, þú og ég eigum hlutdeild í sigri lífsins, að við erum lífsins börn, ljóssins börn, stöndum í birtu upprisu og grafarinnar tómu. En Jesús er ekki sýnilegur lengur í orðsins fyllstu merkingu og það gerði lærisveinanna áhyggjufulla, órólega, ráðvillta.

Við þekkjum þessa tilfinningu að vera ráðvillt, hrædd við það sem koma skal, svolítið áttavillt í flókinni tilveru. Og lái okkur hver sem vill. Það er mikill órói, stefnuleysi, ráðvilla í samfélagi okkar þessar vikurnar. Bankarnir hálf blankir og segjast ekki geta lánað peningana sína, krónan okkar svona eins og verðlausir matadorseðlar í milliríkjaviðskiptum, kunnáttumenn spá því að eigur okkar rýrni um þriðjung á rúmu ári, matvæli og vörur almennt muni stórhækka en launin hækka lítið sem ekkert og það litla sem samið var um nýlega löngu fuðrað upp í himinblámann, eldsneytisverð í himinhæðum og trukkakarlarnir alveg að verða vitlausir. Er nema von að við klórum okkur í hausnum og spyrjum: Hvert stefnir? Hvert leiðir þetta okkur? Hvaða leið eigum við að velja út úr vandanum?

Nú væri gott að hafa tækið góða og röddina hljómlausu sem myndi leiða okkur á rétta leið svo við næðum heim í öryggið sem við þráum á þessum óvissutímum. Líður okkur kannski ámóta og lærisveinunum forðum, finnst eins og grundvöllur lífs okkar sé ekki eins traustur og við hugðum?

Jesús skildi lærisveinana forðum og áhyggjur þeirra. Hann var hjá þeim, hann var röddin sem hvíslaði huggunarorðin, hughreystinguna, kjarkinn, bjartsýnina í sína menn til að þeir mættu síðan rata hin rétta veg tilverunnar, veg gleðinnar, trúarinnar, gætu sungið gleðiljóð og borið Guði sínum vitni. Hann var og er þessi vegvísir sem við eigum innra með okkur. Og hann gerði meira en það fyrir lærisveinana og okkur umleið. Hann sagði við þá að hann myndi senda þeim huggarann. Heilagan anda, anda sannleika og lífs. Hann myndi vera við samvisku þeirra til að hvetja þá að leita hins góða í tilverunni.

Og þann heilaga anda eigum við öll. Heilagur andi er með okkur í okkar tilveru, okkar gleði, okkar áhyggjum, hann er okkur nær en skugginn af sjálfum okkur. Hann er andi sannleikans, sá sem blæs okkur dug og þor til að gera hið rétta og velja hið rétta, rata hinn rétta veg sem liggur til hamingjusams lífs. Spurningin stóra er þessi: Höfum við hlustað, höfum við tekið mark á honum, höfum við tamið okkur það sem hann býður? Eða höfum við látið hann eiga sig. Skera þessi orð Jesú ekki samvisku okkar er hann segir: „Syndin er að þeir trúðu ekki á mig".

Verkfæri Guðs á okkar jörð, kristin kirkja, hefur í boðun sinni varað við því sem nú blasir við að margra mati. Hún hefur varað við græðgi en boðað ráðdeild. Hvort völdum við? Hún hefur boðað að Vesturlönd eigi að temja sér hófstilltari lífsstíl til að hin fátækari ríki fái meira í sinn hlut. Hvort völdum við? Kirkjan hefur varað við að sú misskipting lífsgæða m.a. matvæla sem er í veröld okkar myndi leiða til átaka þegar hinar fátækari þjóðir færu að taka meira til sín. Hvað segja menn nú í dag um slíkt? Við höfum nefnilega ekki hlustað á rödd heilags anda né því síður farið eftir henni. Við erum sek í þessu.

En Guð er þolinmóður, miskunnsamur og örlátur, fyrirgefandi og gæskuríkur. Líkt og röddin í tækinu í Frakklandi gaf mér ný fyrirmæli þegar ég gekk gegn fyrirmælum sem voru mér fyrir bestu, og þreyttist aldrei á að leiðrétta mig, þá má segja að Guð geri slíkt hið sama. Þrátt fyrir óhlýðni okkar við það sem Guð leggur fyrir okkur, þrátt fyrir það að við tölum gegn honum, hæðum hann og spottum, þrátt fyrir það að í samtíma okkar sé þungur niður sem vill afneita honum, þá er hann hér okkar vegna, ekki sín vegna, hann er hér til að benda okkur á hinn rétta veg sem liggur í öryggið og gleðina. Og hans vegur er sá vegur sem mun leiða okkur til frelsis og friðar, hans hugsun og skilningur á eðli lífs og tilveru mun gera okkur kleyft að finna hið góða.

Andi sannleikans sem Kristur heitir lærisveinum sínum í guðspjalli dagsins, heitir hann okkur líka því lærisveinarnir forðum voru kirkjan hans og við sem trúum á hann á okkar tímum erum kirkjan hans. Það er von þessa heims að fylgja rödd hans og tileinka okkur trú á góðan Guð sem hjálparleið í ruglingslegri tilveru. Trúin kallar fram það góða en hafnar hinu illa, hún gefur okkur tækifæri til að stjórna lífi okkar af hógværð og skynsemi en ekki vera viljalaus verkfæri einhvers eða einhverra tískustrauma.

Öll leitum við hins góða. Við missum hins vegar stundum sjónar á því hvað er gott og eltum aðra hluti. Aðeins Guð getur gefið okkur hvíld og hugarró. Leitin að sannleika, lífsfyllingu og tilgangi fylgir manneskjunni lífið í gegn. Um það höfum við ekkert val. Valið snýst um það hvaða leiðsögn við veljum okkur til fylgdar á þeirri mikilvægu leit. Kristin trú er ekki flótti undan lífinu. Hún gefur því gildi og gefur manneskjunni frið. Aðeins Guð getur í kærleika sínum gefið lífi okkar fullnustu. Guð gefi okkur að þiggja leiðsögn hans sem gaf okkur lífið og viðheldur því, honum sem var og er og verður um eilífð andi sannleikans, kærleiksríkur og náðugur Guð og upprisinn Drottinn.

(Prédikun flutt í guðsþjónustu í Fella- og Hólakirkju 20. apríl 2008)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband