Matador - spil nútímans?

Orðið varð hold

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.
Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.
Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd.
14Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.

Guð, sem ert ljós í myrkri. Þetta er dagurinn sem þú hefur gjört. Dagur hinnar miklu gleði. Þú kemur á móti okkur þar sem við þreifum okkur áfram í myrkrinu, og sýnir okkur Jesú Krist sem er fagnaðarboði þessa heims og ljós huggunarinnar augum okkar að eilífu. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi.

Amen

Gleðilegrar jólahátíðar óska ég ykkur öllum, kæru vinir sem hér eruð í dag á jóladegi. Vonandi hafið þið átt gott aðfangadagskvöld og megi þessi dagur og þessi yndislega hátíð færa ykkur öllum blessun trúarinnar og helgan frið í hug og hjarta.

 

Hún hafði sérstaklega gaman að því að spila eitt spil sérstaklega -  Matador. Og ég naut þess ungur að hún eyddi mörgum stundum með mér þegar við spiluðum Matador og oft með fleiri þátttakendum. Líkt og hjá systkinum þessarar konu var þessi spilaánægja þó mörkuð þeim leiða vana að þurfa helst alltaf að vinna spilið. Og stundum var meira að segja svindlað pínulítið öðrum til nokkurrar gremju. Best leið henni þegar hún rakaði að sér fé við leigu á húsum, hótelum, verðbréfum og öðru sem þið þekkið sem hafið spilað Matador. Mér fannst það gremjulegt að láta hana hirða af mér alla peningana og játa mig sigraðan. Hún var sigurvegari leiksins. En hún huggaði mig, blessunin, og lofaði að ég ynni næst. Stundum gekk það eftir en ekki alltaf.

Þetta spil snýst nefnilega um peninga, að græða og sópa að sér fé - en allt í leik, í ímynduninni, í raunveruleikalausum heimi. Þar má hafa rangt við án þess að gjalda fyrir nema kannski með súrum svip þeirra sem ekki sigra. Og svo verða allir vinir aftur og hægt að spila á ný.

Með aldrinum tókst mér þó að ná yfirhöndinni og sjá við klækjum hennar. En sama hver vinnur. Í leikslok rennur allt í sama kassann, teningurinn, bílarnir, húsin, hótelin, verðbréfin og peningarnir. Allt rennur það í sama kassann, sömu kistuna, verðlaust glingur, liggur eins og dauðir taflmenn í kassanum. Eins og allt jarðneskt er dauðlegt. Það lendir á endanum í sama kassa dauðleikans og hverfur af sviðinu - horfið, hefur ekkert gildi lengur nema í minningunni.

Á okkur hafa dunið og dynja í fjölmiðlum, í auglýsingum, í skólunum, frá vinum og starfsfélögum að lífið allt hafi það markmið að ná því að verða sigurvegari í leiknum - lífinu. Lífið er kannski þegar öllu er á botninn hvolft eins og að spila Matador. Að safna að sér auðævum og eignum og standa uppi sem sigurvegari, að vinna leikinn. Kannski stundum með svindli, að hafa rangt við. Þeim er hampað sem sigra og þau fá fínu nöfnin og það er kallað á torgum og haldnar fínar veislur til að verðlauna sigurvegarana í Matadorspili lífsins. En almúginn sem tapar stendur þögull hjá og fær að horfa á og sjá fyrirmyndina. En líka þar lendir allt um síðir í kistunni, verðlaust, gagnlaust, færir ekki auð og völd lengur. Sigurvegarinn er gleymdur því nýr leikur mun hefjast innan skamms.

Ég held að við getum innst lært af þessari líkingu. Með einhverjum hætti þurfum við sífellt að muna það óumflýjanlega, að það er sama hve klár, gáfuð, hæfileikarík, dugleg, útsjónarsöm og vel gerð við erum, muna það að við erum dauðlegar manneskjur sem munum aldrei verða sigurvegarar yfir lífinu sjálfu af eigin mætti. Við getum unnið einstaka áfanga en við náum aldrei að sigra lífið sjálft og verða ódauðleg, sigra dauðann.

Þessar vangaveltur hafa sótt á mig undanfarnar vikur. Við höfum séð spilaborg samfélags okkar hrynja á ótrúlega skömmum tíma. Og við stöndum í rústunum og reynum að bjarga því sem bjargað verður. En við kvíðum því sem framundan er, erfiðleikum, mótlæti og áföllum. Samfélagið var í hrikalegu Matador-spili þar sem spilað var með eigur annarra, fjöregg þjóðar, fjármuni að láni, í raun Matador-peninga og eignir. Og sigurvegararnir fengu hrósið og frægðina. Við sem horfðum á fengum að lesa um útrásarvíkingana, hetjurnar, klára fólkið sem virtist allt að því ódauðlegt. Fjölmiðlar sýndu okkur hallirnar þeirra, bílana, flugvélarnar, snekkjurnar, búgarðana í útlöndum. Og við fengum að fylgjast með einkalífi þessa fólks sem sigraði í Matadornum. Glæsileg brúðkaup, ævintýralegar afmælisveislur, heimsreisur með fríðu föruneyti. Sannir víkingar sem voru að sigra, leggja flest að fótum sér - eða hvað?

Svo kom skellurinn. Leiknum lauk skyndilega. En að þessu sinni var enginn sigurvegari. Öllu dótinu var sópað ofan í kistuna - verðlaust dót. En áhorfendur stóðu og standa enn ringlaðir yfir þessum óvæntu leikslokum. Nú tapa þeir þó þeir hafi bara horft á, þeir borga veisluna sem ekkert gerðu nema fylgjast með. Er nema von að almenningur sé reiður, kvíðinn og sár. Það er ekki stórmannlegt að svindla til að reyna að vinna leikinn og vilja verða sigurvegari.

Manneskjan hefur alltaf verið dugleg að skapa myrkur, lifa í myrkri, smíða tól myrkursins. En vill hún það? Viljum við verða börn myrkursins? "Í myrkrum ljómar lífsins sól", segir í jólasálminum fræga, "Þér lof sé Guð fyrir gleðileg jól". Jólin eru ekki leikur, ekki sjónhverfing, ekki plat. Jólin koma til að hrekja myrkrið úr mannheimi á brott, jólin eru vitnisburður um að líf þitt er helgað ljósinu eilífa, Guð tendraði það við jötuna í Jerúsalem. Í bliki augna þess nýfædda barns, Jesú, sérð þú ljós sem lýsir svo sérstaklega fyrir þig, gefur þér og lífi þínu von um að hið góða lýsir en hið vonda slokknar, að réttlætið muni sigra.

"Orðið verð hold og hann bjó með oss fullur náðar og sannleika", segir í guðspjalli jólanna. Lífið er ekki leikur, ekki leikur með auðævi, manneskjur, veruleika. Lífið er alvara, lífið er vegferð þín með Guði þínum, ferð með fyrirheiti þar sem Jesús er þér nær "en geisli á kinn" til að bægja frá þér myrkrinu en beina að þér ljósinu sem fyllir þig von og gleði. Því verður ekki sópað í kistuna til geymslu, gleymsku og glötunar. Það skín eilíflega í lífi þínu og dauða, í eilífð þeirrar vegferðar sem tilvera þín er af því þú ert Guðs barn, þú ert hluti af Guði eins og þú ert hluti af föður þínum og móður.

Hann býr með okkur, Guð er Guð þess sem lifir og mótar lífið í þess fegurstu mynd. Orðið varð hold táknar í raun og veru það að verund Guðs, vilji Guðs og ætlun býr í persónu þess barns sem á jólum fæðist, Jesús Kristur. Allar þær góðu kenndir sem vakna í brjósti þínu, allt það góða í sál þinni, allt það jákvæða og réttláta sem vaknar í huga þínum, öll sú samúð og umhyggja fyrir öðrum sem kviknar innra með þér, öll þau jákvæðu gildi sem þú aðhyllist, já allt þetta og miklu meira er birting þess að orð Guðs verður hold, hans hugsun verður að veruleika. Til þess fæddist Jesús og lifði og dó og reis upp frá dauðum til að gera hugsun Guðs að veruleika. Þetta er boðskapur jóla og minna þig á að þessar góðu kenndir kristinnar trúar og lífsafstöðu kvikna innra með þér og til þess höldum við jól, til að ítreka þennan stærsta veruleika lífsins.

Þér finnst það kannski undarlegt að kirkjan þín skuli tala svo á krepputíma, þegar haustar að í mörgu mennsku hjarta. Sorg, vonbrigði og andstreymi eru hluti lífsins. Lífið er ekki Matador-spil né nokkur annar léttvægur leikur né dægradvöl. Lífið er alvara, barátta góðs og ills á vettvangi mannlegs lífs. Í þeirri umgjörð gefur Guð þér frelsi til að vera ljóssins barns eða myrkursins barn. Þitt er valið. Sigurvegari lífsins ert ekki þú né ég né hetjur Matadors spilsins. Sigurvegari lífsins er Guð, sá er sigraði dauðann og reis upp til nýs lífs. Hann varð á jólum maður til að sýna okkur kærleika sinn og umhyggju. Hann gaf þér hlutdeild í sigri sínum til að þú værir í sigurliðinu, ekki til að stæra þig af heldur til að þú sæir ljós lífsins og Jesúbarnsins í augum þeirrar manneskju sem þú horfir á. Þú ert ljóssins barn Jesú vegna og það ljós átt þú að bera öðrum og eignast von og gleði trúarinnar. Þannig vitja jólin þín og mín, kalla okkur til að takast á við erfiðleika og vonbrigði í fullvissu þeirrar vonar að réttlætið muni sigra.

Hverju lýtur þessi veröld okkar, ljósinu eða myrkrinu? Svarið felst í þínum huga, þínu viðhorfi, þínu lífi. Jólin spyrja þig: Hvoru viltu lúta, barnið mitt, ljósinu sem skín frá Jesúbarninu í jötunni og söng englanna sem fylltu næturhúmið þegar orðið verð hold eða lífvana og þöglu myrkrinu sem ekkert mannlegt skilur né skynjar? Jólin spyrja um það. Þitt er að svara. Guð gefi þér nú og um eilífð gleðileg jól, þú ljóssins barns og lífsins barn.

 

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda.

Amen

 

Prédikun flutt í hátíðarmessu á jóladag í Fella- og Hólakirkju

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband