Legg þú á djúpið

Guðspjallið Lúk. 5. 1 - 11

Nú bar svo til, að hann stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð.Þá sá hann tvo báta við vatnið, en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. Hann fór út í þann bátinn, er Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum.

Þegar hann hafði lokið ræðu sinni, sagði hann við Símon: Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar.

Símon svaraði: Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin.Nú gjörðu þeir svo, og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska, en net þeirra tóku að rifna.Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana, svo að nær voru sokknir.

Þegar Símon Pétur sá þetta, féll hann fyrir kné Jesú og sagði: Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður. En felmtur kom á hann og alla þá, sem með honum voru, vegna fiskaflans, er þeir höfðu fengið. Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.

Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.

__________________________

 

Hugleiðing í kvöldmessu 5.sd.e.þrenningarhátíð flutt í Fella- og Hólakirkju 22.06.08

                       

Eilífi Guð, þú sem kallar í þína þjónustu karla og konur og framkvæmir með þeim verk þitt á jörðu. Við biðjum þig: Opna þú eyru okkar og hjörtu, að við heyrum þegar þú kallar og fylgjum honum sem þú sendir, Jesú Kristi, sem er bróðir okkar og Drottinn,
og lifir og ríkir með þér og heilögum Anda frá eilífð til eilífðar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi

Amen

Það er stundum stutt bilið milli þeirra systra, sorgarinnar og gleðinnar, eða eigum við kannski ekki að taka svo djúpt í árinni og segja að skammt sé milli vonbrigða og innilegrar gleðitilfinningar. Ég nefnilega þekki tilfinningu Péturs er hann koma að landi eftir fiskidráttinn forðum á vatninu og lesið var úr í guðspjalli dagsins. Ég var í nokkur ár trillukarl í hjáverkum austur á Norðfirði. Ég man vongóðan hug á útstíminu, vonina um happadráttinn, koma síðar um daginn með dekkfulla trilluna af fiski og finna þessa sérkennilegu sælutilfinningu að landa miklum afla. Oftast stóð ég þó í sporum Péturs, lítið fór fyrir uppgripunum og nokkrum tittum var kastað upp á bryggju og ég tók undir með grátkórnum sem réru um svipað leyti eystra. Afli varla fyrir olíu og öðrum kostnaði - tóm vonbrigði. En alltaf var þó haldið í vonina - vonina um að lifa tilfinningu Péturs eftir að Jesús hafði sagt honum að fara aftur og leggja netin til fiskjar og allt yfirfylltist. Hvílík gleði, hvílík sælutifinning að lifa slíka stund.

En Jesús var ekki í aflahugleiðingum að þessu leyti. Hann sagði Pétri og þeim hinum að héðan í frá skyldu þeir menn veiða, fara út í lífið og hversdaginn og vinna menn til fylgis við boðskap Jesú um bjargræði hugans og sálarinnar, um að lífið tæki stakkaskiptum.

Við höfum öll kynnst þessari tilfinningu sælunnar, gleðinnar hinnar sérkennilegu uppljómunar hugans, þess sama og Pétur lifði eftir að hafa fyllt bátinn. Atburðirnir þurfa ekki alltaf að vera stórir né skipta sköpum. Ég fæ t.d. alltaf sérkennilaga vonleysistilfinningu þegar ég fæ bréf frá skattinum. Hvað hef ég nú gert af mér? Hvað á nú að fara að rukka mig meira? Fyrir nokkrum vikum fékk ég bréf frá skattinum og titrandi af ímyndaðri skelfingu opnaði ég bréfið og sjá: Þar var að finna ávísun fyrir ofgreidda skatta, ekki há upphæð en hvílík sæla og mér hefur verið heldur hlýrra til skattstjóra síðan. Bara smáatvik úr hversdeginum. Þú þekkir líka gleðina þegar þú gerir góð kaup, ferð að kaupa þér langþráðan hlut eða tæki og þegar þú kemur í búðina er hún á tilboði og þú græðir heilmikið svona óvænt. Jú, við þekkjum öll þessa þægindatilfinningu þegar eitthvað óvænt happ leggst okkur til.

Jesús hefur sérstakt lag á að veita gleðistraumum inn í daglegt líf okkar, stundum held ég að við gerum okkur tæpast grein fyrir því. Liðin vika. Hvaða gleði færði hún mér og þér? Hvaða viðburðir þessa dags eigum við honum að þakka? Eða erum við kannski svo blind að við sjáum hann ekki í atvikum lífsins? Ég hitti óvenju glaðlegan og skemmtilegan hóp í vikunni, fólk sem ég naut að spjalla við. Af hverju hitti ég þau? Mér finnst að Jesús hafi leitt fund okkar saman því mér leiðist að telja allt tilviljanir. Í hinu smá og hversdagslega er Jesús með höndina sína og hug að hnýta saman það góða og gæfuríka, skerpa á hinum góðu lífsgildum til að lífið verði ögn vingjarnlegra og betra. Við erum mannaveiðarar í þeim skilningi að við erum að láta gott af okkur leiða og laða fólk til samfélags við Jesú.

Pétur hefur sjálfsagt ekki haft háar hugmyndir um dýrð dagsins sem hann réri til fiskjar forðum - einn venjulegur vinnudagur rétt eins og aðrir. Tæplega hefur hann búist við að náð Guðs og andleg viðfangsefni yrðu ofarlega á baugi. En einmitt í miðju hinna hversdagslegu hluta birtist Jesú honum og umvafði hann dýrð og náð Guðs. Í erli hins hverdagslegasta dags allra daga snart Jesús kviku lífs hans og breytti því varanlega. Hann varð aldrei samur maður.

Hvað ber næsta vika í skauti sér fyrir mig og þig? Það vitum við ekki nema það eitt að Guð mun ganga með okkur hvern bjartan dag þessarar viku. Okkar er að skynja hann og sjá í góðum atburðum og persónum. Verum með opin hug við vinnufélagana, börnin okkar, barnabörnin, makann okkar og vini. Samverur og samtöl, félagsskapur við það fólk kann að færa okkur óvænta gleði og gæfu sem við eigum að endurgjalda og þakka, þakka Guði að gefa okkur lífið og samferðafólk. Svo hversdagslega hluti eigum við að meta og þakka í auðmýkt og trú en ekki ana áfram í blindri trú á að allt sé sjálfsagt, allt sé okkur mögulegt, allt sé okkur sjálfsagt.

Vinnuvika fer í hönd kæru vinir. Við höfum komið hingað í kvöld til að láta uppbyggjast í trú til að ganga svo út í samfélagið til að vera mannaveiðarar. Við leggjum út á djúpið til að ganga erinda Jesú Krists og kirkju hans. Það er okkar heilaga köllun, það eru forréttindi, blessun, hlutskipti sem gerir lífið okkar betra, gerir okkur að betri manneskjum. Við leggjum á djúpið með gildin hans og veruleika hans, þjáningu hans og gleði en umfarm allt með sigur hans á því illa, í krafti upprisu hans, með sigur hans á dauðans dimmu myndum hvernig sem þær birtast. Við leggjum á djúpið í fylgd hans með það allt sem hann setur í malinn okkar en skiljum eftir á ströndinni okkar eigin ófullkomleika, bresti, veikleika og vonbrigði.

Heyrum við boðið hans? Nemur þú rödd hans er hann hvetur þig að ganga erinda sinna á djúpinu, í lífinu þínu? Þér finnst það kannski ágengt og umturna áformum þínum. En vita máttu að kall hans mun helga og blessa áform þín, gera þau ríkari að tilgangi svo þú verðir þroskaðri og betri manneskja. Í fylgd Jesú verða allir hlutir, viðmið og afstaða ný og bjartari. Slíku fylgir sérkennileg gleði - og sælutifinning að láta gott af sér leiða. Við skulum leggja á djúpið með Jesú og ganga inn í okkar daglega líf með hans viðmið að leiðarljósi og færa blessun og gleði til þeirra sem með okkur lifa. Við skulum leggja á djúpið í líkri vitund og  Matthías Jochumsson orti í sínum fræga sálmi:

                           Legg þú á djúpið eftir Drottins orði
                           og æðrast ei, því nægja mun þinn forði,
                           þótt ómaksför þú farir marga stund.
                           Ef trú og dáð og dugur ei þig svíkur,
                           er Drottinn lífs þíns ennþá nógu ríkur
                           og mild hans mund.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband